Fara í efni

15. desember - Mannabeinafundur

Höfuðkúpa í lagnaskurðinum á Hóli. Ljósmynd: Ásta Hermannsdóttir, deildarstjóri fornleifadeildar í Byggðasafni Skagfirðinga.
Höfuðkúpa í lagnaskurðinum á Hóli. Ljósmynd: Ásta Hermannsdóttir, deildarstjóri fornleifadeildar í Byggðasafni Skagfirðinga.

Þann 15. ágúst barst minjaverði Norðurlands vestra, Guðmundi Stefáni Sigurðarsyni, tilkynning um að mannabein hefðu fundist í jörðu á bænum Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Þá voru starfsmenn Rarik að leggja heimtaug að bænum og rákust á bein sem þeim þóttu eitthvað torkennileg. Þegar höfuðkúpa af manni kom í ljós skömmu síðar í lagnaskurðinum fór ekki á milli mála að þarna væri eitthvað sem þyrfti að skoða.

Stuttu eftir að minjavörður, ásamt deildarstjóra fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga, mættu á staðinn kom í ljós að beinin tilheyrðu sitthvorri gröfinni. Fljótlega komu fleiri grafir í ljós og ljóst var að um fornan kirkjugarð var að ræða. Við skoðun á gjóskulögum mátti sjá að a.m.k. hluti grafanna var undir Heklu gjósku sem féll árið 1104 en ekki var hægt að útiloka að grafið hafi verið í garðinn eftir það.

Grafarfylling vestast í kirkjugarði. Heklugjóskur frá 1104 (hvít) og frá 1300 (grá) sjást í sniði yfir grafarfyllingum. Ljósmynd: Guðmundur S. Sigurðarson.

Heimildir eru um bænhús á jörðinni en ekki kirkjugarð. Það tíðkaðist oft að þar sem bænhús var að finna, voru áður hefðbundnar bændakirkjur með kirkjugarði sem urðu seinna að bænhúsum en slík hús höfðu ekki heimild til að greftra. Ekki var ljóst hvar bænhúsið hefði staðið og ekkert á yfirborði benti til þess að þarna væri gamall kirkjugarður. Til viðbótar við kirkjugarðinn komu í ljós aðrar mannvirkja- og mannvistarleifar frá sama tíma, m.a. tvö garðlög ásamt hugsanlegum kirkjuleifum og umtals verð rusla- og móöskulög frá 11. öld. En í þessum ruslalögum fannst talsvert af vel varðveittum beinum fugla, fiska og húsdýra, m.a. tveir kjálkar úr svínum.

Svínskjálkar sem fundust í rusli frá því fyrir árið 1104.  Ljósmyndir: Guðmundur S. Sigurðarson.

 

Skurðurinn til hægri fór í gegnum suðurhluta kirkjugarðsins en mikil mannvistarlög voru einnig í þeim syðri, til vinstri á myndinni. Ljósmynd: Ásta Hermannsdóttir.

Þessi fornleifafundur hefur nú þegar bætt miklu við sögu jarðarinnar sem var ekki þekkt úr heimildum fyrr en á 15. öld og staðfest búsetu og mikil umsvif á staðnum, a.m.k. aftur til 11. aldar, sem og tilvist kirkju og kirkjugarðs úr frumkristni.

Mynd til vinstri: Horft til austurs eftir skurði í gegnum kirkjugarð, skörp skil sjást í botni skurðar þar sem grafarfyllingar eru að koma í ljós. Ásta Hermannsdóttir hreinsar lausan jarðveg og les í jarðlögin í skurðinum. Mynd til vinstri: Guðmundur, minjavörður, hreinsar snið í skurðinum og les í jarðlög. 

Blaðamenn Feykis voru fljótir að frétta af þessum merkila fundi og birtu eftirfarandi frétt stuttu eftir að tilkynning barst. Lesa má fréttina hér: Starfsmenn Rarik fundu mannabein í Sæmundarhlíð | Feykir.is en einnig má lesa nánar um fundinn hér: Tilefni til frekari rannsókna á Hóli | Feykir.is