Fara í efni

21. desember - Húsavík

Heimatúnið við Húsavík, veggir gamla kirkjugarðsins neðarlega til vinstri á mynd og gamla bæjarstæðið þar fyrir ofan. Ljósmyndari Indriði Skarphéðinsson
Heimatúnið við Húsavík, veggir gamla kirkjugarðsins neðarlega til vinstri á mynd og gamla bæjarstæðið þar fyrir ofan. Ljósmyndari Indriði Skarphéðinsson

Húsavík er stærsta víkin milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar, þar á Þorsteinn Kleggi að hafa numið land. Stundum kölluð hin Húsavíkin eða Húsavík eystri til að aðskilja hana frá kaupstaðnum Húsavík við Skjálfanda.

„Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík og bjó þar; hans son var Án, er Húsvíkingar eru frá komnir.” Landnáma

Gott þótti að búa í víkinni á fyrri öldum og voru þar í það minnsta fjórir bæir (Húsavík, Dalland, Dallandspartur og Hólshús). Stærsta jörðin í víkinni var kirkjustaðurinn Húsavík sem um tíma var ein dýrmætasta jörðin á Íslandi. Þar var reist lítil kirkja á árunum 1937-1939 sem helguð var Maríu guðsmóður og stendur hún þar enn. Í henni er meðal annars að finna skírnarskál úr tini með ártalinu 1685 og tvo koparstjaka frá svipuðum tíma.

Margrét ríka, sem átti Húsavík á 16. öld, kallaði Húsavík „víkina ljótu en feitu". Sú nafngift er vart verðskulduð því víkin skartar a.m.k. tveim einstökum fjöllum.” Heimasíða Borgarfjarðar Eystri

Húsavíkurkirja árið 2009. Mynd úr gagnasafn Minjastofnunar Íslands.

Hólshús, rústir gamla bæjarstæðisins. Ljósmyndari Indriði Skarphéðinsson.

Oft er snjóþungt í víkinni og stórviðri hefur í gegnum tíðina unnið þar mikið tjón. Þann 5. mars árið 1938 gerði mikið fárviðri um land allt og fuku í því öll bæjarhúsin á Húsavík með fólki og fénaði. Allir sluppu lítið meiddir en spilaði þetta stóran hlut í að fólk fluttist frá víkinni. Lesa má vitnisburð Halldórs Pálssonar, sem var í Húsavík þegar fárviðrið gekk yfir hér. Mjög erfitt var að tryggja nútímasamgöngur í víkina og var það meginástæðan fyrir því að víkin lagðist að mestu í eyði um miðja 20. öld.

Yfirlitskort af svæðinu með örnefnaþekju Minjastofnuna Íslands, Minjavísi, sem sýnir örnefni sem þykja vera vísbending um fornleifar. Loftmyndir ehf.©.

Húsavík hefur aldrei verið skráð á vettvangi en þar er þó augljóslega að finna fjölda fornminja, enda var búið á jörðinni frá landnámi til 20. aldar. Margar tóftir má augljóslega sjá á loftmynd og þá einna helst minjar í heimatúnum bæjanna fjögurra. Gamlan kirkjugarð er einnig að finna við sjávarbakkann skammt frá Húsavíkurkirkju. Veðrun og landbrot hefur brotið niður hluta garðsins og hafa meðal annars kistubrot og bein komið í ljós í sniðinu. Húsavík er alls ekki eini staðurinn á landinu þar sem minjum stafar mikil hætta af veðurfari á Íslandi en strandminjar víðsvegar um landið eru í hættu vegna landbrots og hækkandi sjávarfalla.

Skoðaðu svæðið á minjavefsjá Minjastofnunar

Túnið austan við gömlu bæjarstæðin, þar sést móta fyrir mörgum garðlögum og tóftum. Ljósmyndari Indriði Skarphéðinsson.

Nærmynd af gamla kirkjugarðinum. Ljósmyndari Indriði Skarphéðinsson.

Lesa má nánar um Húsavík á heimasíðu Borgarfjarðar eystri, hér