Fara í efni

22. desember - Efra-Hvolshellar

Séð frá botni Miðhellis að muna, horft til suðurs. Ljósmyndari Albína Hulda Pálsdóttir
Séð frá botni Miðhellis að muna, horft til suðurs. Ljósmyndari Albína Hulda Pálsdóttir

Í landi Efra-Hvols, Rangárþingi eystra, eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Hellarnir eru grafnir í fremur gróft þursaberg sem líklega er jökulberg að uppruna. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efstihellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur, um 20-30 metrum sunnar, og nefnist Stórihellir. Sá er um 45 metrar á lengd og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Hellirinn er tiltölulega jafnbreiður fyrstu 30 metrana en þar breikkar hann og hækkar og myndar nokkurs konar stofu með loftopi í þaki. Inn af hellinum eru löng og þröng göng en ef farið er út og upp fyrir bakkann þessa 45 metra sem hellirinn nær eru þar greinilegar tóftir skála eða langhúsa. Hugsanlega hefur ætlunin verið að tengja göngin við langhúsin og nota þau ýmist sem vatnsveg eða flóttaleið.

Hellarnir eru staðsettir í gili Hvolslækjar, við trjáreit, um 1 km innan við bæinn að Efra-Hvoli. Ef vel er að gáð má sjá móta fyrir tveimur skálalaga byggingum rétt vestan og norðvestan við hellana á kortinu. Loftmyndir ehf.

Ekki er mikið um veggjaristur eða krot í hellunum en óljós fangamörk sjást á stöku stað í Efstahelli og Miðhelli. Á veggjum Stórahellis má greina nokkurs konar galdrastaf ristan í klett fyrir framan hellinn auk stöku fangamarka og ártala á veggjum. Óljóst er hvenær hellarnir voru gerðir og enn hafa þeir ekki verið rannsakaðir með fornleifafræðilegum aðferðum. Síðast voru hellarnir notaðir sem fjárhús og hlaða en hafa staðið auðir og ónotaðir síðan 1943. Það mætti leiða líkum að því að þeir hafi einnig verið notaðir sem útihús, allt frá því að búið var í langhúsunum ofan Stórahellis. Út frá formi og legu langhúsanna gætu þau verið frá víkingaöld.

Skálalaga tóftir eða langhús. Myndir frá árinu 2021.

Talið er að hellagerð hafi verið stunduð á Íslandi allt frá landnámstíð og fram undir miðja 20. öld en erfiðlega hefur gengið að tímasetja hellana nákvæmlega. Náttúrulegar aðstæður á Suðurlandi eru ákjósanlegar til hellisgerðar og eru á annað hundrað manngerðra hella þekktir á svæðinu, allt frá Ölfusi og austur í Mýrdal. Má þar m.a. nefna Ægissíðuhella við Ytri Rangá, Rútshelli undir Eyjafjöllum og Odda á Rangárvöllum, þar sem síðustu ár hefur farið fram umfangsmikil fornleifarannsókn á hellunum sem þar er að finna.

Teikningar af Efra-Hvolshellum, úr Manngerðir hellar á Íslandi. Hellarnir voru friðlýstir árið 1929.

Nánari lýsing á Efra-Hvolshellum og hellum á Íslandi almennt er að finna í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi eftir Árna Hjartarson, Guðmund J. Guðmundsson og Hallgerði Gísladóttur.