Fara í efni

23. desember - Árnesþingstaður

Á þessari samsettu loftmynd sést móta fyrir fjölda búðatófta. Minjarnar við Búða og í Árnesi eru friðlýstar, skv. menningarminjalögum.
Á þessari samsettu loftmynd sést móta fyrir fjölda búðatófta. Minjarnar við Búða og í Árnesi eru friðlýstar, skv. menningarminjalögum.

Árnesþingstaður er í landi Minna-Hofs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, nánar tiltekið á norðurbakka Þjórsár við fossinn Búða og vestan undir háum móbergsstapa er nefnist Búðaberg. Draga fossinn og stapinn að líkindum nöfn sín af þingbúðunum. Á búðasvæðinu sést nú móta fyrir hátt í 30 búðum, en þær eru þó taldar hafa verið fleiri. Hafa einhverjar orðið uppblæstri að bráð, einkum næst Þjórsá, en einnig er talið að nokkrar hafi sléttast út vegna áfoks. Þingstaðurinn dregur nafn sitt af Árnesi sem nú er eyja í miðri Þjórsá en er talin hafa verið landföst á fyrri öldum. Er talið að meginfarvegur árinnar hafi þá verið sunnan við nesið.

Yfirlitskort af Árnesþingstað, þar hafa verið mældar upp fleiri en 20 búðir með nútíma tækni. Loftmyndir ehf.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þinghald var á Árnesþingi en getgátur hafa verið um að sjálft þinghaldið hafi farið fram í Árnesi. Þar er að finna svonefndan Þinghól, sem er hár stuðlabergshóll vestarlega á nesinu og undir honum sunnanverðum sést móta fyrir hringlaga mannvirki sem kallað er „dómhringurinn“ í daglegu tali. Ekki hefur þó ríkt eining um þessa tilgátu og hefur því verið haldið fram að hinn meinti dómhringur sé í raun rétt eða jafnvel fjárborg frá fyrri tíð. Einnig hefur verið bent á fjarlægð Þinghóls frá búðasvæðinu í þessu sambandi og talið líklegt að einhverjar búðatættur væri þá að finna í Árnesi, hafi þinghaldið farið fram þar. Hefur jafnframt verið bent á að sjálft búðasvæðið við Búða sé hinn ákjósanlegasti staður til leika og annarra mannafunda því þar sé að finna sléttar flatir umkringdar holtum og því líklegra að þinghaldið hafi farið fram þar.

Skoðaðu svæðið á minjavefsjá Minjastofnunar

Svokallað DTM (Digital Terrain Model), stafrænt landlíkan, af Árnesþingstað. Litirnir tákna hæð landslagsins, þar sem dökkblátt liggur lægst í landinu og rautt hæst. Sést vel móta fyrir búðunum á miðri mynd.