Fara í efni

24. desember

Vígðalaug er friðlýstur minjastaður og stórmerkilegur í trúarsögu Íslendinga. Ekki aðeins létu Norðlendingar og Sunnlendingar skírast þar til kristinnar trúar á leið frá Alþingi um árið 1000 heldur lék laugin einnig hlutverk í siðaskiptunum um 1550. Jón Arason Hólabiskup var hálshöggvinn ásamt sonum sínum tveimur í Skálholti eins og þekkt er og um vorið 1551 sóttu Norðlendingar líkin í Skálholt til að færa þau heim að Hólum. Á leiðinni norður var áð við Vígðulaug, líkbörurnar voru lagðar á steina og líkin þvegin í lauginni. Þessir steinar eru því nefndir Líkasteinar og eru þeir enn við laugina í dag.

IMG_20190724_110645

Vígðalaug hefur verið lagfærð nokkrum sinnum í gegnum tíðina en fornleifarannsókn á henni árið 1999 leiddi í ljós að lögun hennar hefur ekki breyst mikið frá því hún var fyrst hlaðin. Árið 1932 flutti Ragnar Ásgeirsson til Laugarvatns og í lýsingu hans á lauginni segir að ekki sjáist sást í laugina nema rétt í barmana, hún sé full af sandi og leðju og vafalaust ekki verið hreinsuð í marga áratugi. Þá um sumarið gróf Ragnar upp laugina og kom þá í ljós hleðsla allt í kring og steinlagður botn. Hún mældist um 70-80 cm djúp, um 150 cm að þvermáli og var kringlótt í lögun. Ragnar lét einnig hlaða torfgarð umhverfis laugina.

Síðustu tvær viðgerðir á lauginni voru gerðar árin 1999 og 2014. Helgi Sigurðsson, hleðslumeistari úr Skagafirði, lagfærði hleðslur í lauginni sumarið 1999. Árið 2014 fékk Minjastofnun Íslands styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til viðhalds á lauginni og nánasta umhverfi hennar. Þá var Guðjón Kristinsson, hleðslumeistari frá Dröngum, fenginn til að lagfæra hleðslur í lauginni ásamt torfgarðinum sem liggur umhverfis hana.

Í Vígðulaug rennur heitur lækur og er sagt um hana, líkt og margar heitar laugar á landinu, að vatnið í lauginni hefði lækningamátt. Ingunn Eyjólfsdóttur, sem fæddist árið 1873 á Laugarvatni, greindi frá því að í hennar barnæsku hafi oft verið sent eftir vatni í laugina þegar einhver veiktist á bæjum í nágrenninu og því greinilegt að fólk hafði mikla trú á lækningamætti vatnsins í lauginni.

Vígðalaug var friðlýst árið 1969 af Þór Magnússyni, þjóðminjaverði. Í dag er Vígðalaug vinsæll áningarstaður ferðalanga, sérstaklega eftir langar göngur um hálendið. Þótt ekki fari mikið fyrir henni í landslaginu geymir hún langa sögu um ferðir fólks á staðinn, hvort sem það kom þangað til skírnar, eða með von um lækningu. Ekki er ólíklegt að margir Íslendingar væru tilbúnir að skella sér í jólabað í heitri laug sem einnig hefði lækningamátt - þá sérstaklega gegn farsóttum.

Minjastofnun Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Vigdalaug

IMG_20190724_110618_B