Fara í efni

24. desember - Knebelsvarða

Minnisvarði um Walter von Knebel og Max Rudloff
Minnisvarði um Walter von Knebel og Max Rudloff

Sumarið 1907 héldu þrír Þjóðverjar, jarðfræðingurinn dr. Walter von Knebel, listmálarinn Max Rudloff og jarðfræðistúdentinn Hans Spethmann, í rannsóknarferð í Öskju. Sem hluta af rannsókn sinni héldu tveir þeirra, Knebel og Rudloff, út á Öskjuvatn í bát en Spethmann gekk umhverfis vatnið. Um kvöldið höfðu Knebel og Rudloff ekki skilað sér tilbaka úr ferð sinni og hóf Spethmann umsvifalaust leit að þeim en leit hans bar engan árangur. Þá voru ennfremur gerðar tvær tilraunir til að finna þá um sumarið og í seinna skiptið var fenginn ferjubátur af Grænavatni og reynt að slæða vatnið en án árangurs. Líklegt er talið að hrunið hafi úr bakkanum umhverfis vatnið, jafnvel á bátinn sjálfan eða þá í vatnið, og það orsakað flóðbylgju sem hafi steypt bátnum þeirra. Ferjubáturinn sem notaður var við leitina var geymdur skammt fyrir sunnan Víti en hvarf undir hraun í mars 1921 og heitir það nú Bátshraun.

Yfirsýn yfir Öskjuvatn frá Knebelsvörðu árið 2008

Sumarið eftir hvarf þeirra félaga kom unnusta von Knebels, Ina von Grumbkow, í Öskju að leita skýringa á hvarfinu og til að finna líkamsleifar þeirra. Hlóðu hún og ferðafélagar hennar vörðu úr vikursteinum á vatnsbakkanum, örstutt vestan við Víti, og er er varðan í dag þekkt undir heitinu Knebelsvarða. Varðan var upprunalega um 3 m í þvermál og 4 m há. Ferðafélagi Inu, dr. Hans Reck, hjó nöfn Knebels og Rudloffs og dánarár á grágrýtisstein og var hann settur í suðurhlið vörðunnar. Steinn þessi brotnaði seinna í þrjá hluta og hvarf einn þeirra að öllum líkindum sumarið 1980. Nú er búið að fjarlægja steininn en í staðinn er komin koparplata með sambærilegri áletrun og var á grágrýtissteininum auk þess sem kveðja er komin á hana frá Íslandsvinum í Köln og Hamborg. Ina von Grumbkow skildi fleiri persónulegar minjar eftir en þær eru nú horfnar.

Knebelsvarða árið 2008

Knebelsvarða var hlaðin sumarið 1908 og er því 100 ára, en samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 teljast allar minjar eldri en 100 ára til fornleifa og eru friðaðar. Varðan hefur staðið af sér umbrot í tengslum við Öskjuelda þegar hraun runnu örskammt frá henni, svo sem árið 1921 þegar Bátshraun rann. Eitthvað hefur varðan verið endurbætt og endurhlaðin í gegnum tíðina.

 

Ómar Ragnarsson orti ljóð um staðinn og fjallar eitt erindi þess um hvarf Þjóðverjanna:

„Beygðir í duftið dauðlegir menn

Dómsorði skaparans hlíta.

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn

sig ekki frá gröf sinni slíta.“

Ómar Ragnarsson, Kóróna landsins

 

 

Lesa má nánar um Mannshvarfið í Öskjuvatna í grein Kristins H. Guðnasonar í DV árið 2018 og í tímaritinu Huginn frá árinu 1907

Skjáskort af grein um slysið úr tímaritinu Huginn, 22. ágúst 1907