Fara í efni

3.desember - Öndverðarnes

Yfirlitsmynd af minjum á Öndverðarnesi, 2018
Yfirlitsmynd af minjum á Öndverðarnesi, 2018

Öndverðarnes er vestasti tangi Snæfellsness og um leið Neshrauns, sem runnið er úr Öndverðarneshólum og Saxhólum. Á Öndverðarnesi var á árum áður mikil útgerð og margar þurrabúðir en jörðin hefur nú verið í eyði frá 1945.

Á Öndverðarnesi má sjá töluvert af rústum sem vitna til um starfsemi á nesinu fyrr á öldum og ljóst er að mikið mannlíf hefur verið þar áður fyrr. Á meðal minja má m.a. nefna friðlýstu minjarnar Fálka og Dómaragarð. Um brunninn segir í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags að hann sé grafinn inn í brekku mót suðri og sé um 3 faðmar að lengd. Framhluti inngangsins er opinn en að innanverðu er yfir honum þak af hraunhellum. Veggir inngangs og brunnsins sjálfs eru hlaðnir úr grjóti. Var lengi regla, og talið nauðsynlegt, að hreinsa hann árlega. Þegar brunnurinn er tæmdur sést að í honum eru þrjár uppsprettur; ein frá vestri, önnur frá austri og sú þriðja frá norðri og sagt var að vatnið sem kæmi úr austur-uppsprettunni hefði ölkeldubragð. Litlu fyrir vestan brunninn gengur grjóthlaðinn garður, nefndur Dómarahringur. Uppruni nafnsins er ókunnur en vel má vera að ágreiningur hafi verið um skiptingu túns og garðurinn hafi verið hlaðinn til að útkljá málið.

Loftmyndir af minjum á Öndverðarnesi, til vinstri frá 1979 og til hægri frá 2017.

Minjarnar á Öndverðarnesi eru dæmi um strandminjar sem nú eru í stórhættu vegna ágangs sjávar. Hækkandi sjávarstaða með aukinni ölduhæð sem og tíðari ofsaveður eru meðal ástæðna fyrir því að sjór gengur nú bæði oftar og lengra inn á land en áður hefur tíðkast. Afleiðingar eru m.a. þær að land brotnar í sjó fram og þar með hverfa minjarnar sömuleiðis í sjó. Margar þessara minja við strandlengjuna eru dæmi um minjar sem tengjast sjósókn sem er sá atvinnuvegur sem átti stóran þátt í að halda lífi í Íslendingum fyrr á öldum. Ef heldur áfram sem horfir munu margar þessara minja hverfa í sjó fram á komandi árum og með þeim mikið magn af upplýsingum um þetta mikilvæga lífsviðurværi Íslendinga.

Skoðaðu svæðið á minjavefsjá Minjastofnunar