Fara í efni

4.desember - Angró og Wathne

Wathne húsið árið 2011
Wathne húsið árið 2011

Húsin við Hafnargötu 35 og Hafnargötu 44, Angró og Wathne, eru einu tvö húsin sem eftir standa af því veldi sem tilheyrði norska athafnamanninum Otto Wathne sem var umsvifamikill á Seyðisfirði á 19. öld og stundum er nefndur „faðir Seyðisfjarðar“.

Hafnargata 35, Angró, var reist árið 1881 sem síldarsöltunar- og íbúðarhús þar sem Wathne sjálfur bjó þangað til hann flutti inn í nýtt íbúðarhús handan götunnar, árið 1894.

Angró er bindingsverkshús og eitt örfárra eftirstandandi sjóhúsa á landinu; undirstöður þess eru að mestu hlaðnar en fremsti hluti hússins stendur á staurum í sjó fram. Bærinn eignaðist húsið árið 1929 en fram að því var þar starfsemi tengd útgerð og verslun.

Árið 1894 var hið nýja Wathneshús við Hafnargötu 44 fullbyggt. Það þótti einstakt stórhýsi og skrauthýsi á sinni tíð og var eitt vandaðasta og veglegasta íbúðarhús sem reist var hér á landi á 19. öld. Jafnframt var húsið einn fyrsti og glæsilegasti fulltrúi svonefnds sveitserstíls, nýrrar stílstefnu sem hingað barst frá Noregi á öndverðri 19. öld og hafi mikil áhrif á gerð og útlit timburhúsa hér á landi við upphaf 20. aldar. Frá árinu 1906 gegndi húsið hlutverki sem fyrsta símstöð og helsta fjarskiptamiðstöð landsins og á sama tíma var húsið lengt og kvist bætt við. Síðan árið 1981 hefur það hýst bæjarskrifstofur Seyðisfjarðar ásamt aðstöðu fyrir Tækniminjasafn Austurlands.

Wathnehúsið fyrir og eftir stækkun. Myndin til vinstri er tekin skömmu eftir að húsið er byggt 1894, tekin af Eyjólfi Jónssyni. Myndin til hægri er tekin eftir stækkun hússins. 

Viðgerð á Angró var langt á veg komin þegar aurflóðið féll árið 2020 og olli skemmdum á neðri hæð hússins en sú efri skemmdist ekki. Wathneshús stendur innan skilgreinds hættusvæðis eftir hamfarirnar og nú stendur yfir undirbúningur fyrir flutning þeirra á nýjar lóðir í bænum svo betur megi tryggja varðveislu þeirra til framtíðar.

Myndir af Angró, sú til vinstri er tekin á stríðsárunum en sú til hægri er tekin árið 2015, áður en endurbætur hófust.