Fara í efni

7.desember - Silfurmynt í Þjórsárdal

Myntin frá Þjórsárdal, báðar hliðar. Ljósmyndari Ívar Brynjólfsson
Myntin frá Þjórsárdal, báðar hliðar. Ljósmyndari Ívar Brynjólfsson

Síðastliðið haust gekk Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður fram á áhugaverða mynt þegar hún var á göngu um Þjórsárdal ásamt föður sínum, Þór Magnússyni, fyrrverandi þjóðminjaverði. Myntin var sett í efnagreiningu og kom í ljós að silfurinnihald hennar var hátt, eða 93,5%. Þessi niðurstaða er í samræmi við aðrar greiningar á myntum frá víkingaöld. Gerð myntarinnar frá Þjórsárdal sver sig mjög í ætt við þá mynt er Haraldur blátönn Danakonungur lét slá á árunum 970-980. Mynt Haraldar konungs hefur þótt merkileg bæði vegna aldurs myntsláttunnar en ekki síður vegna krossmynstursins sem á peningnum er. Talið er að dreifing myntarinnar hafi verið liður í trúboði konungs.

Myntin úr Þjórsárdal stuttu eftir að hún fannst

Myntin fannst á yfirborði í Þjórsárdal og verður að teljast líklegt að hún hafi borist upp á yfirborð með leysingavatni vegna framkvæmda fyrir nokkrum árum. Starfsmenn Minjastofnunar fóru á vettvang og skoðuðu aðstæður en fundu ekki klárar vísbendingar um hvaðan myntin hefur komið. Fundarstaðurinn og nærumhverfi verður skoðað betur þegar snjóa leysir næsta vor.

Mynt frá tíma Haralds blátannar sem fannst við bæinn Råhede í Danmörku, Nationalmuseet.