Fara í efni

8.desember - Fornir bátar

Hrönn KE-48 í fjörunni við Geldinganes. Ljósmyndari: Margrét Björk Magnúsdóttir, 2023
Hrönn KE-48 í fjörunni við Geldinganes. Ljósmyndari: Margrét Björk Magnúsdóttir, 2023

Við strendur landsins er að finna fjölda skipsflaka og báta sem hafa strandað í gegnum tíðina af ýmsum ástæðum. Bátar gegna mikilvægu hlutverki í menningarsögu þjóðarinnar og því miður hefur gríðarlegur fjöldi tréskipa og báta týnt tölunni hérlendis á síðustu áratugum.

Danski báturinn Mjöll RE 10 strandaði um miðjan marsmánuð árið 1966 við Geldinganes, aðeins þremur árum eftir að hún var sett á flot. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins á þessum tíma sigldi drukkinn háseti skipinu í strand. Aðstaða til björgunar var afar erfið þar sem báturinn strandaði í stórgrýti og var hann mikið skemmdur. Taldi eigandinn að kostnaður við að lagfæra hann yrðu um 300.000 - 400.000 kr. Ekki var búið að ná Mjöllinni á flot þegar greinin kom út í Morgunblaðinu, nokkrum dögum eftir að báturinn strandaði.

Í fyrstu var talið að bátsflakið sem myndirnar eru hér af væru af Mjöllinni en við frekari eftirgrennslan hefur komið í ljós að um er að ræða súðbyrðinginn Hrönn KE-48 sem strandaði einnig við Geldinganes. Á vef Árna Björns Árnasonar um skipasmíðar, báta og skip sem hafa verið byggð á Íslandi má finna upplýsingar um bátinn og ljósmyndir. Hann var smíðaður úr furu og eik í Bátalóni árið 1971, afturbyggður þilfarsbátur með 98 ha. Powa Marine vél. Árni rekur þar nafna sögu bátsins og frá árinu 1987 hét hann Lax III RE., Reykjavík þar til hann var felldur af skipaskrá 22. desember 1998. Síðustu árin var báturinn notaður til að þjónusta laxeldiskvíar á Sundunum við Reykjavík. Hann slitnaði upp af legu á Grafarvoginum og rak upp í Geldinganes.

Báturinn er nú illa farinn en þó má enn vel greina smíði súðbyrðingsins. Ljósmyndari: Margrét Björk Magnúsdóttir, 2023.

Hefur þú rekist á skipsflak við strendur landsins? Endilega sendu okkur mynd og upplýsingar um staðsetningu með því að smella hér á hlekkinn ⇒ Minjar í hættu | Minjastofnun