Fara í efni

9.desember - Goðaborg

Borgarklettur, sjá má glitta í Goðaborg efst við hægri brún klettsins
Borgarklettur, sjá má glitta í Goðaborg efst við hægri brún klettsins

Tvær Goðaborgir svokallaðar er að finna í Sveitarfélaginu Hornafjörður. Fyrri Goðaborgin er á klett í túninu hjá bænum Borg á Mýrum. Klettur þessi er betur þekktur sem Borgarklettur eftir Goðaborg sem er að finna á toppi hans. Goðaborg er hringmynduð tóft þar sem menn telja að hafi verið blótstaður til forna. Goðaborg var friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði, árið 1931. Kristian Kålund fjallaði lítillega um rústirnar í bók sinni Íslenzkir sögustaðir og var hún loks skráð af starfsmönnum Minjastofnunar Íslands árið 2010.

Borg. Leifar af kringlóttri tóft, sem kallast Goðaborg, á Borgarkletti. Sbr. Kålund 1879-1882: 274. Skjal undirritað af MÞ 27.06.1931. Þinglýst 27.06.1931.“ Skrá um friðlýstar fornleifar

Borgarklettur við skoðunarferð Minjastofnunar Íslands árið 2014

Seinni Goðaborgina er að finna við rætur Vatnajökuls, langt upp á Hoffellsfjalli. Er hér um að ræða náttúruminjar eða örnefni frekar en eiginlegar fornleifar. Goðaborg þessari fylgja þó margar sögur og var hún meðal annars skráð sem fornaldarleifar af Magnúsi Ólafssyni, presti í Bjarnarness- og Hoffellssóknum, og er skemmtilega lýsingu hans á fyrirbæri þessu að finna í Frásögum um fornaldarleifar, fyrri hluta. Segir sagan að maður einn frá Hoffelli hafi villst að veggjum Goðaborgar við smölun og þá hafi hann séð þar hlið með hurð úr kopar.

Þad er almæli hér, ad fólk í Heidni, hafi tilbedid þar God sín, sem ennnú muni þar vera í sama formi med nógum Aud, þó einginn géti þad víst sagt, þar einginn hefr arædi haft, ad grenslast efftir því, fyrir gamla Hiátrú, og ótta, ad einhvör óhamíngia ad þeim stefni, sem leitast vid, ad fornvitnast efttir þvílíkumm fornaldar leifumm, og til slíkra Stafa munu ikki Menn audfeingnir, þó nógu hugdiarfir sieu í flestu ödru, nema þar til kiæmi áqvardadur annarar þiódar oddviti, sem med öruggre Ransókn giæti þetta fornalldar Stand, od adrar uppleitadar bygdir í Midlandinu, afkomid slíku Verki Hindrunar lítid: - Halda Menn víst, ad Annex Kirkiustadurinn Hoffell hafi Nafn tekid af Hofi þessu, og í frásögum er alud Heidinna Manna, sem skyldu hafa á þeirri Helgi Samkomumm geingid berfættir upp allt Hoffells fiall ad Hofinu.“ Frásaga um Fornaldarleifar, fyrri hluti

Staðsetning Goðaborgar efast á Hoffellsfjalli við rætur Vatnajökuls, Loftmyndir ehf

Fleiri áhugaverðar sögur um Goðaborg er einnig að finna í örnefnalýsingu Hoffells eftir Guðmund Jónsson, sjá hér. Sigfús Sigfússon skrifaði einnig um Goðaborg þessa í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1932.

Þriðju Goðaborgina er einnig að finna í Sveitarfélaginu Hornafirði, á Svínahólafjalli við Lón, en ekki verður nánar fjallað um hana hér. Til gamans má geta að mörg örnefni sem tengjast Goðaborgum hafa verið skráð en nánast öll þeirra eru á Austurlandi.

Skoðaðu svæðið á minjavefsjá Minjastofnunar

Örnefni sem tengjast Goðaborg á Austurlandi, Landmælingar Íslands