Fara í efni

Eldsumbrot á Reykjanesi

Minjavörður Reykjaness við skráningu menningarminja rétt sunnan Fagradalsfjalls árið 2021.
Minjavörður Reykjaness við skráningu menningarminja rétt sunnan Fagradalsfjalls árið 2021.

Frá því að eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga árið 2021 hefur Minjastofnun Íslands unnið ötullega að skráningu og haft eftirlit með menningarminjum á svæðinu. Um mótvægisaðgerð er að ræða vegna þeirrar hættu sem að fornleifum getur stafað vegna hraunrennslis og jarðhræringa. Selstöður eru fjölmargar á Reykjanesskaga og eru sel helsti flokkur minja í grennd við gosstöðvarnar. Selin voru ein af grunnforsendum landbúnaðar á Reykjanesi um aldir og metur Minjastofnun gildi þessa menningarlandslags afar hátt. Þekkt er að hraunrennsli hafi haft áhrif á búsetulandslag á Reykjanesi, en árið 1151 rann Ögmundarhraun yfir fjölda mannvirkja, líkt og friðlýsti minjarstaðurinn Húshólmi ber í dag vitni um. Í ljósi þess að síðasta hrina eldgosa á Reykjanesi, Reykjaneseldar, stóð yfir í 30 ár frá 1210 til 1240, er mikilvægt að huga að mögulegri þróun mála til lengri tíma litið og að forvirkni í minjavernd. Minjastofnun fylgist því grannt með á Reykjanesi þessa dagana og metur hvort ráðast þurfi í frekari mótvægisaðgerðir til bjargar minjum.