Fara í efni

Jóladagatal - ORA verksmiðjan

Á Kársnesinu í Kópavogi er fjölbreytt iðnaðarsvæði sem þróast hefur frá því á fyrri hluta 20. aldar. Að þessu sinni er fjallað um niðursuðuverksmiðju ORA sem upphaflega var reist árið 1951 á norðurströnd Kársness.

Tryggvi Jónsson stofnandi ORA reisti verksmiðjubygginguna á sumarbústaðalandi en hún var þá ein örfárra bygginga norðanmegin við strandlengju Kársness líkt og sést á loftmynd frá 1954. Byggingin hefur tekið töluverðum breytingum og samanstendur í dag af sjö minni byggingum sem raðast í einskonar tímalínu frá vestri til austurs.

Árið 1971 var byggt við verksmiðjuna eftir teikningum Harðar Björnssonar arkitekts. Útlit viðbyggingarinnar er dæmigert fyrir iðnaðarhúsnæði þess tíma þar sem burður var í súlum, ekki veggjum, sem gerði það að verkum að gólfflötur var rýmri og auðvelt að umbreyta rýmum eða laga að nýrri notkun.

Í byggðakönnun Kársness sem unnin var af Önnu Maríu Bogadóttur arkitekt eru dregin fram dæmi um hús sem eru eftirtektarverð eða einkennandi fyrir ákveðið skipulagstímabil, byggingarlist, sögu eða tíðaranda og talið vert að vekja athygli á. Niðursuðuverksmiðja ORA við Vesturvör 12 er ein þeirra.

Gríðarleg breyting hefur orðið á skipulagi svæðisins síðastliðin 50 ár og má því segja að sérstaða svæðisins liggi í fjölbreytni og sögulegri vídd þar sem atvinnuhúsnæði myndar snertiflöt milli núverandi íbúðarhúsnæðis og blandaðrar byggðar.

 

Í byggðakönnun Kársness má meðal annars finna greiningu svæðisins frá 1940-2022 og útlit valinna iðnaðarbygginga.

Henný Hafsteinsdóttir minjavörður Reykjavíkur og nágrennis fjallaði um niðursuðuverksmiðju ORA í Víðsjá 13. nóvember 2025 og segir meðal annars: „að almennt hafi iðnaðarhúsnæði svo sem þetta eftirsóknarverða eiginleika þegar kemur að hönnun og endurnýtingu. Þar er oft hærra til lofts og gluggasetning óhefðbundin, stærð rýma og mælikvarði hússins öðruvísi en í nýjum íbúðum. Síðan eru ýmis smáatriði eins og efniskennd og áferð sem geta gefið skemmtilegan „contrast“ við þetta nýja…“. Hlusta má á viðtalið hér.

Nálgast má teikningar hér.

Nálgast má byggðakönnun hér.