Fara í efni

Friðlýsing menningarlandslags í Þjórsárdal

Miðvikudaginn 14. október undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, friðlýsingu menningarlandslags í Þjórsárdal. Menningarlandslagið er friðlýst á grundvelli 18. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 og er langstærsta svæði sem friðlýst hefur verið á þeim grundvelli. Markmið friðlýsingarinnar er að standa vörð um þau menningarsögulegu verðmæti sem felast í menningarlandslagi Þjórsárdals.


Menningarlandslag Þjórsárdals hefur sérstöðu vegna fjölda fornbýla og annarra minja sem varðveist hafa í dalnum. Á þriðja áratug 20. aldar voru 22 fornbýli í dalnum friðlýst, en tilgangur friðlýsingarinnar nú er að ná öllum þeim merku minjum sem svæðið hefur að geyma, þ.e. menningarlandslaginu sem varðveitt er í dalnum, undir eina friðlýsingu - þar með talið þeim 22 fornbýlum sem áður voru friðlýst.

IMG_20160818_135750

Þjórsárdalur hefur að geyma einstakar minjar sem ná yfir tímabilið frá landnámi og fram á miðaldir. Dalurinn hefur ótvírætt rannsóknargildi fyrir fræðimenn enda má rekja upphaf nútíma fornleifarannsókna á Íslandi til viðamikilla samnorrænna rannsókna sem gerðar voru á minjum í dalnum árið 1939.

Við afmörkun friðlýsingarinnar var kappkostað að ná utan um Þjórsárdal sjálfan: að taka mið af staðháttum og landfræðilegum mörkum dalsins að Gaukshöfða undanskildum. Landslagi var fylgt við afmörkunina og hálendisbrúnin þrædd nema í suðvestri þar sem aðstæður buðu ekki upp á það. Bújarðirnar Hagi og Ásólfsstaðir eru teknar undan friðlýsingu nema að því leyti að fornbýlið Skallakot úr landi Ásólfsstaða 2 er innan hins friðlýsta svæðis. Snjáleifartóttir í landi Haga, um 800 m austnorðaustan við bæinn og um 120 m norðan Þjórsárdalsvegar, eru utan við friðlýsta menningarlandslagið. Rústir Snjáleifartótta voru friðlýstar árið 1927 og helst sú friðlýsing óbreytt.

Friðlýsing Þjórsárdals er veigamikið skref í þeirri viðleitni að standa vörð um þær miklu frumheimildir sem jörðin geymir um líf og starf kynslóðanna á stóru landssvæði. Rökstuðning friðlýsingarinnar má lesa hér .

Vegna aðstæðna í samfélaginu var undirritunarathöfnin ekki haldin í Þjórsárdal eins og stefnt hafði verið að heldur fór athöfnin fram á samskiptaforritinu, Zoom. Upptöku af athöfninni má finna hér .