Fara í efni

Jóladagatal - Bensínstöðin Ægisíðu

Á tímabili um miðja síðustu öld voru ýmsar bensínstöðvar hannaðar af miklum metnaði af færustu arkitektum landsins. Aðeins örfá dæmi standa eftir í borgarlandslanginu og er bensínstöðin við Ægisíðu 102 í Reykjavík ein þeirra.

Bensínstöðin var reist á árunum 1977-1978 eftir teikningum arkitektanna Ferdinands Alfreðssonar og Guðmundar Kr. Kristinssonar fyrir Olíufélagið hf. Byggingarstíll hússins ber einkenni módernisma og fúnkísstíls í efnisvali, léttleika og hreyfingu í formi þar sem notkun húsa endurspeglast í útliti þeirra eins og má sjá í grunnmynd og útliti bensínstöðvarinnar. En líkt og annar af arkitektum byggingarinnar Guðmundur Kr. Kristinsson segir í viðtali í Tímanum árið 1957 þá þarf notagildi bygginga að sitja í fyrirrúmi, en fagurfræðin að fá sinn skerf. „Allt verður að haldast í hendur, notagildi, lausn tæknilegra vandamála og hið fagurfræðilega sjónarmið.“

Grunnmynd bensínstöðvarinnar minnir á kuðung eða blævæng þar sem misstórum rýmum er stallað upp út frá sívalning sem staðsettur er fyrir miðju. Skyggni og stétt umhverfis bygginguna fylgja formi og útliti byggingarinnar.

Rýmin, sem eru ólík að stærð, eru afmörkuð með gólfsíðum gluggum. Bogadregnir veggir eru án gluggaopa en krafa var gerð í skipulagi um að öll rými sem snéru að einbýlishúsum umhverfis bensínstöðina væru gluggalaus. Jafnframt var skilyrt í skipulagi að ekki mætti þjónusta stóra bíla á lóðinni og að öll vinna þyrfti að fara fram innanhúss. Má því draga þá ályktun að hönnun byggingarinnar og listrænt form hennar ráðist að hluta af takmörkunum í skipulagi.

Á suðvesturhlið er ásýnd byggingarinnar önnur þar sem skyggni sem tegir sig í átt að Ægisíðu leiðir viðskiptavini að afgreiðslu.

Á útlitsteikningu af suðausturhlið bensínstöðvarinnar má sjá hvernig sívalningur, kjarni byggingarinnar, sem hefur að geyma þjónusturými s.s. stiga, biðstofu, snyrtingar og starfsmannaaðstöðu, rís upp í miðju umvafin misháum rýmum. Afgreiðsla, staðsett vinstra megin er lægsta rýmið en þau fara hækkandi umhverfis sívalninginn og enda á hjólbarðaverkstæði (sjá hægra megin á teikningu), sem er jafnframt hæsta rýmið.

Bensínstöðin við Ægisíðu hefur undirgengist töluverðar breytingar og ber þar helst að nefna klæðningu sem hefur verið komið fyrir á steyptum flötum og skyggni. Henný Hafsteinsdóttir minjavörður Reykjavíkur fjallaði um bensínstöðina í Víðsjá 28. október 2025 og lýsir m.a. hvernig skilja má upphaflegt útlit byggingarinnar betur. „Ef við ætlum að reyna að skilja byggingarlistina hérna þá verðum við að horfa á húsið með blöndu af röntgen gleraugum og ímyndunarafli og reyna að skræla okkur inn að kjarnanum. Ef við ímyndum okkur núna að við séum búin að skræla alla þessa klæðningu af og afmá þessa mis-rauðu liti þá kemur ýmislegt í ljós.“ Hlusta má á viðtalið hér.

 

Ljósmyndir eru úr myndasafni Ljósmyndasafns Reykjavíkur. 

Teikningar eru frá teikningavef Reykjavíkurborgar.

 

.