Fara í efni

Jóladagatal - Dugguvogur 42

Síðasta byggingin sem fjallað verður um í jóladagatali Minjastofnunar að þessu sinni er Dugguvogur 42 í Reykjavík. Dugguvogur 42 (áður nr. 2) stendur austan Sæbrautar á svæði þar sem ný íbúðabyggð, Vogabyggð, er í uppbyggingu. Einnig er ráðgert að Sæbraut verði sett í stokk á þessum kafla á næstu árum og í tengslum við þessar breytingar er gert ráð fyrir niðurrifi eldri byggðar á svæðinu.

Húsið við Dugguvog 42 var reist á árunum 1971-1972 eftir teikningum Karls-Erik Rocksén sem iðnaðar- og skrifstofuhús fyrir flutningafyrirtækið Gunnar Guðmundsson hf. Um er að ræða steinsteypt, formfast iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði, gert úr endurteknum einingum og með sýnilegt burðarvirki. Neðri hæð hússins skiptist í röð opinna rýma með tvöfaldri lofthæð en á efri hæð er skrifstofuaðstaða með einfaldri lofthæð.

Í húsinu fléttast byggingarlist og myndlist saman á óvenjulegan hátt en á meðan á byggingarferlinu stóð var Gerður Helgadóttir, myndhöggvari og brautryðjandi þrívíðrar abstraktlistar á Íslandi, fengin til að hanna lágmyndir á vesturhlið hússins. Um var að ræða nýjung á Íslandi en ekkert annað hús hafði verið prýtt með lágmyndum að utanverðu á þeim tíma.

Lágmyndirnar voru fyrst skornar út í frauðplast og þær síðan festar á krossvið sem komið var fyrir í mótum áður en húsið var steypt. Myndirnar sýna ýmis form sem vísa í bílavarahluti, undirvagna og annað sem minnir á starfsemina sem upphaflega var í húsinu.

Húsið þótti á sínum tíma dæmi um vandað og vel hannað iðnaðarhús og hlaut sem slíkt viðurkenningu fegrunarnefndar Reykjavíkur árið 1974.

Henný Hafsteinsdóttir minjavörður Reykjavíkur og nágrennis fjallaði um Dugguvog 42 í Víðsjá 3. desember 2025. Þar er meðal annars rætt um þá breytingu sem orðið hefur á Vogahverfinu sem áður var kallað Iðnvogahverfi og spurt „hvenær búið sé að rífa of mikið þannig að maður missir tenginguna við sögu svæðisins?“ Hlusta má á viðtalið hér.

 

Teikningar má nálgast hér.

Umfjöllun um Gerði Helgadóttur í Tímanum má nálgast hér.

Húsakönnun Borgarsögusafns má nálgast hér.