Jóladagatal - Grjótmulningshúsin á Ártúnshöfða
Grjótmulninghúsin sem áður voru hluti af Grjótmulningsstöðinni, elsta fyrirtæki sem Reykjavíkurbær átti og var starfrækt á Ártúnshöfða, stóðu við Sævarhöfða 6-10 þar til fyrr á þessu ári þegar þau voru rifin vegna áforma um skipulagsbreytingar. Húsin gáfu umhverfinu sögulega dýpt enda endurspegluðu þau þann iðnað sem stundaður var einna lengst á svæðinu, frá upphafi grjót- og sandnáms bæjarins við Elliðaárvog sem hófst upp úr 1945.
Húsin voru byggð árið 1961 eftir teikningum Rögnvaldar Þorsteinssonar bæjarverkfræðings og samanstóðu af fjórum byggingum, sem stóðu í röð frá vestri til austurs og tengdust með færiböndum.

Grjót sem hafði verið sprengt í grjótnámi Reykjavíkur, fyrst við Elliðaárvog en síðar í Selási, var flutt með stórum vögnum í grjótmulningsstöðina og þar affermt við forbrjót. Eftir að hafa farið í gegnum forbrjótinn gekk grjótið áfram á færibandi í gegnum þrjár mulningsvélar sem brutu grjótið í mismunandi kornastærðir. Í húsinu sem stóð vestast fór fram síðasti hluti grjótmulningsferilsins. Við húsið var skýli fyrir fínefni (sem stendur enn) þar sem bílar gátu keyrt undir bygginguna og fyllt farm sinn af grjótmulningi. Grjótið sem mulið var í grjótmulningshúsunum var meðal annars notað sem undirlag fyrir flestar götur borgarinnar. Starfsemin sem fram fór í húsunum hafði því sterk tengsl við innviðasögu Reykjavíkurborgar ásamt því að bera atvinnusögu svæðisins og sögu gatnamála vitni.

Í húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur var lagt til að grjótmulningshúsin (sem heild) myndu njóta hverfisverndar í gulum flokki í deiliskipulagi. Sjá nánar hér.

Hvað ef það hefði verið ákveðið að aðlaga skipulagið að þessum húsum? Hvað hefði verið hægt að gera? Hefði verið hægt að nýta þessi hús í tengslum við Borgarlínustöð? Og hefði „Grjótmulningsstöðin“ ekki verið flott stopp á Borgarlínu? Þetta er meðal þess sem Henný Hafsteinsdóttir minjavörður Reykjavíkur ræddi í viðtali sem fór fram í Víðsjá 30. september 2025. Hlusta má á viðtalið hér.