Fara í efni

Menningarminjadagar Evrópu 2020

Menningarminjadagar Evrópu (European Heritage Days) verða víða með óvanalegu sniði í ár. COVID-19 hefur sett strik í reikning hátíðarinnar og munu mörg lönd hafa dagskrá sína með stafrænum hætti að þessu sinni. Þema ársins er Menningararfur og fræðsla (Heritage and Education) og verða menningarminjadagarnir haldnir hér á landi dagana 21.-28. ágúst.

Í takt við framkvæmd menningarminjadaganna í öðrum löndum og óvissuna sem ríkir vegna heimsfaraldursins hvetjum við þá sem vilja taka þátt í menningarminjadögunum undir þemanu „menningararfur og fræðsla“ til að skoða þá möguleika sem þeir hafa til að taka þátt í hátíðinni með stafrænum hætti. Viðburðir sem samræmast leiðbeiningum almannavarna um mannamót eru að sjálfsögðu leyfilegir, þótt við hvetjum sérstaklega til stafrænna viðburða í ár. Þemað er mjög víðfeðmt og býður upp á fjölmarga og fjölbreytta möguleika. Hér má t.a.m. sjá 101 hugmynd að viðburðum.  

Áherslur viðburða geta tengst:

- Miðlun menningararfs og þekkingar um hann í nútímanum

 - Fræðslu fyrri tíma (farskólar, skólahús, kennsluefni)

- Viðhald gamallar þekkingar (handverk, sagnahefð, tónlist)

- Þróun fræðslu/kennslu/náms í gegnum tíðina

- Notkun á menningararfi í kennslu í dag

… svo örfá dæmi séu tekin!


Minjastofnun Íslands mun líkt og fyrri ár halda utan um dagskrá menningarminjadaganna og kynna á sínum miðlum viðburði hátíðarinnar. Þeim sem vilja taka þátt í menningarminjadögunum í ár er bent á að hafa samband við Ástu Hermannsdóttur, verkefnastjóra hjá Minjastofnun: asta@minjastofnun.is.

Menningarminjadagarnir eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu. Allt frá Aserbæsjan í austri, til Portúgals í vestri og norður til Noregs. Viðburðahaldarar geta verið allt frá einstaklingum yfir í opinbera aðila. Markmið menningarminjadaganna er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Víða eru byggingar og staðir sem venjulega eru óaðgengileg almenningi opnuð fyrir öllum, fólk er hvatt til að taka þátt í viðburðum sem tengjast menningararfinum og vekja þannig áhuga þess á arfleifðinni og mikilvægi hennar fyrir samfélagið. Lögð er áhersla á að ekki sé innheimtur aðgangseyrir fyrir viðburði og að allir séu boðnir velkomnir.


Facebook síða menningarminjadaganna á Evrópuvísu .

Heimasíða menningarminjadaganna í Evrópu .

Facebook síða menningarminjadaganna á Íslandi .

Allir sem standa fyrir viðburðum í tengslum við menningarminjadagana hafa möguleika á að senda inn sögur í European Heritage Stories, en 10 slíkir aðilar fá árlega styrki til sinna verkefna. Sjá nánar hér .