Fara í efni

Minjastofnun Íslands heimsækir Efnismiðlun Sorpu

Í vikunni hittu Rúnar Leifsson, forstöðumaður, ásamt arkitektum Minjastofnunar, Pétri Ármannssyni, Maríu Gísladóttur og Henny Hafsteinsdóttur, Frey Eyjólfsson verkefnastjóra hringrásarhagkerfisins hjá Sorpu og Hafstein Unnar Hallsson, verslunarstjóra Efnismiðlunar Sorpu.

Þeir kynntu starfsemi Efnismiðlunar SORPU sem er markaður fyrir notuð byggingarefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda. Minjastofnun hefur undanfarið leitað leiða til þess að stuðla að því með markvissum hætti að heillegir og endurnýtanlegir byggingarhlutar úr eldri húsum fái endurnýjun lífdaga í stað þess að vera fargað. Gömul hús þarfnast sífellds viðhalds og mikil eftirspurn er eftir t.d. gluggum og hurðum í þessháttar verkefni en vantað hefur miðlægan vettvang til að koma þeim í hringrás. Tilgangur heimsóknarinnar var að fræðast um hvernig Efnismiðlun Sorpu virkar og kanna hvort flötur væri á samstarfi milli Minjastofnunar Íslands og Sorpu þegar kemur að endurnýtingu byggingarhluta úr gömlum húsum sem oft hafa mikið varðveislugildi út frá handverki og menningarsögu, hafa verið smíðaðir af mikilli list og oft úr betri efniviði en almennt fæst í dag. Stór hluti alls úrgangs hér á landi kemur frá byggingariðnaði en með aukinni endurnýtingu má draga úr sóun á byggingarefni. Auk þess getur falist í því fjárhagslegt hagræði fyrir eigendur gamalla húsa að geta endurnýtt hluti úr öðrum húsum við viðgerðir og endurbætur. Minjastofnun telur ýmis sóknarfæri í því að endurnýja gamla byggingarhluta og að auka samstarf á milli stofnana og fyrirtækja. Við þökkum Frey, Hafsteini og Sorpu fyrir frábærar móttökur.