Fara í efni

Stefnumótun um vernd menningarminja

Hafin er vinna við mótun stefnu í vernd byggingarfs, fornleifa og menningarlandslags. Stefnan snýr einnig að fornleifarannsóknum. Stefnan er unnin skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012, 8. 9. og 11. gr í samstarfi Minjastofnunar Íslands og ráðgjafarnefnda hennar: fornminjanefndar og húsafriðunarnefndar. Til að aðstoðar við vinnuna var fengið ráðgjafafyrirtækið Stratagem, en starfsfólk þess hefur töluverða reynslu þegar kemur að stefnumótun í málaflokki menningarminja.

Verkefnisstjórn hefur verið stofnuð um vinnuna og í henni sitja: Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, Hanna Rósa Sveinsdóttir, formaður húsafriðunarnefndar, Sandra Sif Einarsdóttir, varaformaður fornminjanefndar, Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri hjá Minjastofnun, Þórður Sverrisson, ráðgjafi hjá Stratagem og Ása Karín Hólm, ráðgjafi hjá Stratagem.

Fyrsti hluti vinnunnar snýr að greiningu á málaflokknum og fer sú vinna fram í gegnum viðtöl við einstaklinga, rýnifundi með 10-15 manna hópum, netkönnun og rýni ýmissa gagna. Þegar greiningunni er lokið verður farið í stefnumótunina sjálfa og loks innleiðingu. Vonast er til að vinnunni ljúki á vormánuðum.

Síðustu vikur hefur verkefnisstjórnin unnið að kortlagningu málaflokksins og uppstillingu viðtala og rýnifunda. Viðfangsefni tengd verndun fornleifa, menningarlandslags og byggingararfs og fornleifarannsóknum teygja anga sína víða og snerta margar hliðar samfélagsins um land allt. Til að hægt sé að móta skynsamlega og raunhæfa stefnu er nauðsynlegt að gæta þess að öll sjónarmið komi fram. Í því skyni verður stórum hópi fólks boðið að taka þátt í greiningarvinnunni með einum eða öðrum hætti; með þátttöku í viðtölum, rýnihópum eða netkönnun. Vonumst við til að aðilar taki vel í beiðnir um þátttöku í þessu mikilvæga verkefni.