Fara í efni

Súðbyrðingurinn á skrá UNESCO

Smíði og notkun súðbyrðinga, hefðbundinna norrænna trébáta, var þann 14. desember sl. sett á skrá UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir óáþreifanlegan menningararf. Norðurlöndin stóðu sameiginlega að tilnefningunni en Vitafélagið hafði veg og vanda að undirbúningi hennar fyrir Íslands hönd.

Skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf er hliðstæða Heimsminjaskrár UNESCO. Óáþreifanlegur menningararfur felur m.a. í sér lifandi hefðir og menningarerfðir en til áþreifanlegs menningararfs, sem Heimsminjaskráin inniheldur, teljast staðir, t.a.m. byggingar og minjastaðir.


Mynd fengin af heimasíðu Vitafélagsins.


Á vef Stjórnarráðsins segir um súðbyrðinginn :

„Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem í tvö þúsund ár hefur skipt sköpum fyrir sjósókn Norðurlandanna. Súðbyrðingar geta verið margvíslegir eftir landssvæðum, en aðferðin við smíði þeirra er sú sama á Norðurlöndunum. Smíði þessara báta byggir á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Frá alda öðli hafa súðbyrðingar tengt saman samfélög stranda á milli, fært norrænar þjóðir út í heim og heiminn aftur til Norðurlandanna. Hefðin við smíði og notkun súðbyrðinga er meginþáttur strandmenningar okkar og er sameiginleg arfleifð Norðurlandanna.“ 

Við óskum öllum þeim sem stóðu að tilnefningunni, íslensku þjóðinni og heimsbyggðinni allri til hamingju með þessa nýju og þörfu skráningu súðbyrðingsins á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf.

Hér má nálgast skráningu súðbyrðingsins á heimasíðu UNESCO .