Fara í efni

Verminjar í hættu - Hafnir á Skaga

Í byrjun júlí fóru starfsmenn Minjastofnunar á vettvang til að kanna minjar sem eru að rofna í sjó fram í landi Hafna á Skaga. Við það tækifæri var tekið upp meðfylgjandi myndband þar sem sjá má minjarnar og þá vinnu sem fór fram á staðnum, auk viðtals við Guðmund St. Sigurðarson, minjavörð Norðurlands vestra og verkefnastjóra strandminja hjá Minjastofnun.

Hafnir á Skaga

Því miður er það svo að fjöldi minjastaða við strendur landsins eru í hættu vegna landbrots af völdum sjávar og eru margir merkilegir staðir illa farnir af þeim sökum. Sums staðar hefur landbrot verið viðvarandi í einhverju mæli svo öldum skiptir en annars staðar virðist vandamálið hafa vaxið mikið á undanförnum áratugum. Hverju þar er um að kenna getur verið breytilegt eftir svæðum. Það er þó ljóst að mesti skaðinn verður þegar saman fara há sjávarstaða og djúpar lægðir með miklum áhlaðanda, líkt og gerðist ítrekað veturinn 2019-2020 með tilheyrandi tjóni á fjölda minjastaða við norðvestanvert landið og víðar. Þótt síðasti vetur hafi verið mildari og minna um slík ofsaveður þá er ljóst að fyrirsjáanlegar breytingar á loftslagi eru líklegar til að hafa neikvæð áhrif á þessa þróun.

Þrátt fyrir að því sé spáð að sjávarborðshækkun við strendur Íslands verði lítil á næsta árhundraði, samanborið við sunnar á hnettinum, þá er ljóst að hækkunin mun þegar þar að kemur auka enn á þennan vanda. Það sem kann að einhverju leyti að skýra aukið landbrot á mörgum svæðum á síðustu áratugum er sú staðreynd að aldan eru nú í auknu mæli að skella á þýðri jörð sem veitir minni mótspyrnu en frosnir bakkar. Sömuleiðis kann minni hafís úti fyrir landinu að hafa áhrif á öldustyrk og áhlaðanda einkum við norðan- og norðvestanvert landið. Aðrir þættir sem áhrif geta haft á landbrot, og erfiðara er að sjá fyrir hvernig munu þróast með breyttu loftslagi, tengjast t.a.m. lífríki hafsins. Það hefur sýnt sig að þaraskógar, þar sem þá er að finna, draga verulega úr öldustyrk á grunnsævi og að breytingar á slíkum vistkerfum geta haft mikil áhrif á landbrot, bæði til góðs og ills.

En hvað sem orsökunum líður þá er ljóst að það þarf að bregðast við. Þarna eru að tapast ómetanlegar heimildir um allt frá aðbúnaði og lífsviðurværi íslenskra og jafnvel erlendra sjómanna, að vinnsluaðferðum og ástandi fiskistofna og lífríkis í hafinu í kringum landið frá fyrri tíð. Þá eru, auk minja sem tengjast sjósókn, minjar af ýmsum toga við strendur landsins í hættu og þar með merkilegar heimildir um nábýli við hafið, sjósókn, verslun og gamla búskaparhætti.

Þar sem landbrot hefur verið viðvarandi lengi, líkt og t.d. á vestanverðu Reykjanesi, er megnið af elstu minjunum við ströndina nú þegar horfið enda er strandlengjan víða komin langt inn á gömul heimatún og jafnvel heilu bæjarstæðin farin.

Það er ljóst að við komum aldrei til með að bjarga öllum minjum við strendur landsins eða rannsaka þær, en megináherslan hlýtur að vera á minjarnar sem tengjast sjósókn og nábýli við hafið þar sem þær finnast ekki annars staðar en við ströndina og eru því í mestri hættu á að tapast. En til að hægt sé að forgangsraða stöðum til rannsókna og varðveislu þá þurfum við að fá yfirsýn yfir þennan flokk minja og það verður ekki gert öðruvísi en með átaki í fornleifaskráningu á vettvangi.