Fara í efni

Falið í sand og sæ - málþing um fornar minjar í Skaftárhreppi

Í tengslum við ársfund Kirkjubæjarstofu er boðið til málþings um fornminjar á landi og neðansjávar í Skaftárhreppi fimmtudaginn 28.ágúst nk. kl. 14.00 í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli, Kirkjubæjarklaustri.

Dagskrá

Á kafi í sandinn og upp úr honum aftur !

Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur mun fjalla um fornleifasrannsóknirnar í Arfabót á Mýrdalssandi sem hófust sumarið 2012 með rannsókn á meintri kirkju. Rannsóknin var gerð' að frumkvæði Þórðar í Skógum Tómassyni
Árið 2016 var aftur farið af stað og nú að frumkvæði þáverandi safnstjóra Sverris Magnússonar sem lagði til fé og starfsmann samkvæmt samningi og hófust rannsóknir sumarið 2017 og hafa staðið yfir síðan. Sumarið í ár er síðasta sumar rannsóknanna. Markmið rannsóknanna var að kanna síðasta skeið búsetunnar í Arfabót og hversu mikil áhrif Katla hafi á hana. Einnig var þess freistað að kanna upphaf búsetu á staðnum.

Þetta er gott strand

Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur/rannsóknardósent hjá Rannsóknarsetri HÍ í Bolungarvík og stundar rannsóknir á sviði sjávarfornleifafræði með sérstaka áherslu á fiskveiðar, hvalveiðar og verslun fyrr á öldum. Undanfarin ár hefur verið unnið að verkefni sem hefur það að markmiði að kanna umfang neðansjávarminja við Ísland. Einn hluti þessa verkefnis er að safna saman úr íslenskum ritheimildum upplýsingum um skipskaða við Ísland frá landnámi til nútíma. Hingað til hafa verið skráðir 1144 skipskaðar víðsvegar í kringum landið en margt bendir til þessa að minnsta kosti 3000 skip hafi farist við Ísland frá upphafi byggðar í landinu. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þetta verkefni, með sérstakri áherslu á skipskaða á svæðinu frá Eyrarbakka, austur að Höfn í Hornafirði.
 

Ógn og undur -  Fornleifar og viðvarandi náttúruvá af völdum Kötlu

Ragnheiður Gló Gylfadóttir, fornleifafræðingur við Fornleifastofnun Íslands Mun hún í sínu erindi fjalla um rannsókn sína „Ógn og Undur“ - Viðvarandi náttúruvá af völdum Kötlu í Álftaveri og á Mýrdalssandi. Rannsóknin er styrkt af Fornminjasjóði og hefur staðið yfir með hléum frá árinu 2022. Markmiðið er að varpa ljósi á samspil minja, landnýtingar og aðlögun íbúa að stöðugri náttúruvá og draga fram ómetanlegar upplýsingar um flóðasvæði, uppblásturssvæði, eyðibyggðir, tilfærslu bæja og mannvirkja svo einhver dæmi séu tekin. Til að svara markmiðinu var gerð ítarleg fornleifaskráning innan rannsóknarsvæðisins og er hún grundvöllur rannsóknarinnar. Alls er búið að skrá rúmlega 1000 fornleifar innan rannsóknarsvæðisins sem eru fleiri fornleifar en gert var ráð fyrir og ljóst að varðveisla á sumum svæðum er með eindæmum góð. Framundan er áframhaldandi úrvinnsla á gögnum og með þeim verður til einstakt gagnasafn um minjarnar sem varðveist hafa í byggðinni og eru til vitnis um aldalanga búsetu á svæði sem er undir viðvarandi náttúruvá.
 

Nunnurnar í Kirkjubæ - eftirmæli

Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur og prófessor við HÍ mun í erindi sínu segja frá lífi og störfum nunnanna í Kirkjubæjarklaustri. Í klaustrinu, sem rekið var í hátt á fjórðu öld, var einkum lögð áhersla á klæðagerð fyrir kirkju og samfélag. Rekstur klaustursins var farsæll en nunnurnar urðu þó fyrir áföllum, ekki síst á tímum svarta dauða í upphafi 15. aldar. Þær nutu virðingar hjá leikum og lærðum á sinni tíð en nunnurnar hurfu af sjónarsviðinu með siðaskptunum um miðja 16. öld og verk þeirra þar með.

 

Öll velkomin - ókeypis inn!

Sjá einnig á facebook ⇒ Falið í sandi og sæ