Fornleifakönnun á nokkrum örnefnum á Ströndum
Fornleifakönnun á nokkrum örnefnum á Ströndum
Einar Ísaksson
Rannsóknir á staðfræði kumla á Íslandi gefa til kynna að kuml megi finna í nánd við bæi, við landamerki og við þjóðleiðir. Ofan á þetta bætist sagnaarfur um endanlega dvalarstaði landnámsmanna, smala, bardagamanna, völva og svo mætti lengi telja. Þrátt fyrir þessa vitneskju er Ísland heldur fátækt þegar kemur að fornum gröfum og flest kuml hafa fundist fyrir slysni. Með þessar upplýsingar í farteskinu var lagt upp í vegferð sumarið 2024 til að kanna hvort að með góðu móti sé hægt að leita uppi kuml á fyrrgreindum staðsetningum og hvort gamlar sagnir um dys, hauga og leiði standist nánari skoðun. Einnig er því velt fyrir sér hvort landslag ætti að spila stærri þátt í kumlarannsóknum.
Rannsóknarsvæðið nær yfir fimm fornar kirkjusóknir, Óspakseyrarsókn, Fellssókn, Tröllatungusókn, Staðarsókn og Kaldrananessókn á Ströndum. Rannsóknin, sem stendur og fellur með sagnaarfi heimamanna, er á forstigi en einungis 10 staðir hafa verið skoðaðir nánar af þeim tæpu hundrað sem hafa verið skráðir.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir rannsóknina, aðferðafræðina og fátækar for-niðurstöður raktar.
Fyrirlesturinn er hluti af Nýjar rannsóknir í fornleifafræði 2025, fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga og námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 202 í Odda, Háskóla Íslands.