Fara í efni

Grindarsmíðanámskeið á Tyrfingsstöðum

Námskeið í grindarsmíði verður haldið á Tyrfingsstöðum á Kjálka í Skagafirði dagana 27.-29. ágúst næstkomandi. Á Tyrfingsstöðum hafa verið endurreist og viðgerð nokkur torfhús, híbýli, útihús og hlöður, sem saman mynda einstaka minjaheild og hefur Fornverkaskólinn haft vettvang til kennslu í hefðbundnu byggingarhandverki á staðnum í hátt í 20 ár.

Til stendur að reisa húsgrind í hesthúsið, sem áfast er gömlu híbýlunum á staðnum. Jafnframt verða kennd handtökin við að rífa rekavið, en í húsunum á Tyrfingsstöðum má finna bæði tilsniðið timbur og rekavið. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Snædís Traustadóttir, húsasmíðameistari. 

Helstu markmið námskeiðsins eru m.a. að nemendur þekki helstu hugtök í grindarsmíði og heiti verkfæra, tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja og læri að byggja einfalda húsgrind úr tilsniðnu timbri og rekaviði.

Námskeið Fornverkaskólans er styrkt af Húsafriðunarsjóði.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga: https://www.glaumbaer.is/is/fornverkaskolinn/namskeid