Síðdegispopp stafrænna hugvísinda
Kathryn Ann Teeter, heldur næsta erindi í nýrri fyrirlestraröð Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) sem er kölluð Síðdegispopp stafrænna hugvísinda og mun fara fram á þriðjudögum í vetur kl. 16:30. Þessi fyrirlestur verður haldinn í stofu 209 í Eddu, þriðjudaginn 16. september kl. 16:30-17:30. Verið öll velkomin.
Fyrirlestur Kathryn Ann nefnist „Future-Proofing the Past: 3D Scanning Icelandic Turf Houses“. Í fyrirlestri sínum fjallar Kathryn Ann um torfhús og varðveislu þeirra. Torfhúsið er mikilvægur hluti af sögu og menningararfi Íslands, en þessi einstöku mannvirki eru sífellt í meiri hættu. Til að tryggja að torfhúsin varðveitist fyrir komandi kynslóðir þurfum við að bæta skilning okkar á burðargetu þeirra og byggingareiginleikum. Þrívíddarskönnun er ein af aðferðunum þar sem stafrænar tæknilausnir eru sameinaðar varðveislu safna til að auka þekkingu okkar og styðja við langtímavarðveislu.
Í fyrirlestraröð MSHL munu sérfræðingar úr ýmsum greinum stafrænna hugvísinda og lista kynna rannsóknir sínar í stuttum og aðgengilegum fyrirlestrum. Boðið verður upp á ókeypis popp og nóg af hugmyndum til að deila!
Þau sem eiga ekki heimangengt geta fylgst með fyrirlestrunum í streymi á YouTube-rás MSHL.
Smellið hér til að kynna ykkur dagskrá fyrirlestraraðarinnar.