Fara í efni

Söguganga í Skálholti

Komdu í sögugöngu um einn merkasta menningarstað Íslands!

Skúli Sæland, sagnfræðingur, leiðir gesti um Skálholtsstað og varpar ljósi á sögu staðarins sem var andlegur, trúarlegur og veraldlegur höfuðstaður þjóðarinnar í meira en sjö aldir.

Í göngunni verður gengið inn í Skálholtsdómkirkju og saga hennar rifjuð upp og hinna áhrifamiklu biskupa sem þar sátu. Í kjallara kirkjunnar er safn þar sem fornir gripir og steinkista Páls Jónssonar frá 1211 verða skoðuð, ásamt legsteinum og minjum sem komu í ljós við uppgröftinn á fimmta áratug síðustu aldar. Því næst verður gengið í gegnum undirgöngin sem tengja kirkjuna við hið víðfeðma fornleifasvæði. Þar verður staldrað við og sagt frá merkilegum uppgreftri sem varpaði nýju ljósi á daglegt líf í Skálholti.

Gestir fá einnig að kynnast Þorláksbúð, sem stendur á upprunalegum grunni frá 16. öld, og saga hennar verður rakin í samhengi við helgi Þorláks biskups. Gengið verður að minnisvarða um Jón Arason Hólabiskup og að Þorlákssæti þar sem dregnar verða fram sögur sem tengjast helgum dýrlingi Íslands.

Gangan tekur um það bil eina og hálfa klukkustund, er á jafnsléttu og hentar öllum aldurshópum. Aðgangur ókeypis.

Veitingastaðurinn Hvönn er opinn og tilvalið að fá sér veitingar að göngu lokinni.

Sögugangan er hluti af Menningarminjadögum Minjastofnunar Íslands.