Fara í efni

Torfhleðslunámskeið á Minni-Ökrum í Skagafirði

Námskeið í torfhleðslu verður haldið á Minni-Ökrum í Skagafirði dagana 30. ágúst - 1. september næstkomandi. Til stendur að halda áfram að hlaða upp torfvegg í gamla fjósinu á staðnum, en hafist var handa við verkið á námskeiði Fornverkaskólans sumarið 2024.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa áhuga á að læra að byggja úr torfi. Hluti af námskeiðinu er í formi kynningar og vettvangsskoðunar, en megináhersla verður á verklega kennslu. Kennd verða meginatriði í efnisvali, torfstungu og torfristu og helstu hleðsluaðferðir með streng og klömbruhnausum.

Helstu markmið námskeiðsins eru m.a. að nemendur þekki helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir er tíðkast í torfhleðslu, þjálfist í torfhleðslu og efnistöku, geti hlaðið og gengið frá torfvegg með klömbruhnaus og/eða streng og tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja.

Námskeið Fornverkaskólans er styrkt af Húsafriðunarsjóði.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga: https://www.glaumbaer.is/is/fornverkaskolinn/namskeid