Jóladagatal Minjastofnunar Íslands 2020

Gleðileg jól

24. desember

Vígðalaug við Laugarvatn

Vígðalaug er friðlýstur minjastaður og stórmerkilegur í trúarsögu Íslendinga. Ekki aðeins létu Norðlendingar og Sunnlendingar skírast þar til kristinnar trúar á leið frá Alþingi um árið 1000 heldur lék laugin einnig hlutverk í siðaskiptunum um 1550. Jón Arason Hólabiskup var hálshöggvinn ásamt sonum sínum tveimur í Skálholti eins og þekkt er og um vorið 1551 sóttu Norðlendingar líkin í Skálholt til að færa þau heim að Hólum. Á leiðinni norður var áð við Vígðulaug, líkbörurnar voru lagðar á steina og líkin þvegin í lauginni. Þessir steinar eru því nefndir Líkasteinar og eru þeir enn við laugina í dag.

IMG_20190724_110645

Vígðalaug hefur verið lagfærð nokkrum sinnum í gegnum tíðina en fornleifarannsókn á henni árið 1999 leiddi í ljós að lögun hennar hefur ekki breyst mikið frá því hún var fyrst hlaðin. Árið 1932 flutti Ragnar Ásgeirsson til Laugarvatns og í lýsingu hans á lauginni segir að ekki sjáist sást í laugina nema rétt í barmana, hún sé full af sandi og leðju og vafalaust ekki verið hreinsuð í marga áratugi. Þá um sumarið gróf Ragnar upp laugina og kom þá í ljós hleðsla allt í kring og steinlagður botn. Hún mældist um 70-80 cm djúp, um 150 cm að þvermáli og var kringlótt í lögun. Ragnar lét einnig hlaða torfgarð umhverfis laugina.

Síðustu tvær viðgerðir á lauginni voru gerðar árin 1999 og 2014. Helgi Sigurðsson, hleðslumeistari úr Skagafirði, lagfærði hleðslur í lauginni sumarið 1999. Árið 2014 fékk Minjastofnun Íslands styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til viðhalds á lauginni og nánasta umhverfi hennar. Þá var Guðjón Kristinsson, hleðslumeistari frá Dröngum, fenginn til að lagfæra hleðslur í lauginni ásamt torfgarðinum sem liggur umhverfis hana.

Í Vígðulaug rennur heitur lækur og er sagt um hana, líkt og margar heitar laugar á landinu, að vatnið í lauginni hefði lækningamátt. Ingunn Eyjólfsdóttur, sem fæddist árið 1873 á Laugarvatni, greindi frá því að í hennar barnæsku hafi oft verið sent eftir vatni í laugina þegar einhver veiktist á bæjum í nágrenninu og því greinilegt að fólk hafði mikla trú á lækningamætti vatnsins í lauginni. 

Vígðalaug var friðlýst árið 1969 af Þór Magnússyni, þjóðminjaverði. Í dag er Vígðalaug vinsæll áningarstaður ferðalanga, sérstaklega eftir langar göngur um hálendið. Þótt ekki fari mikið fyrir henni í landslaginu geymir hún langa sögu um ferðir fólks á staðinn, hvort sem það kom þangað til skírnar, eða með von um lækningu. Ekki er ólíklegt að margir Íslendingar væru tilbúnir að skella sér í jólabað í heitri laug sem einnig hefði lækningamátt - þá sérstaklega gegn farsóttum.

Minjastofnun Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

24.-des

Vigdalaug

IMG_20190724_110618_B


23. desember

Sveinkahús

Í landi Kelduvíkur, við vestanverðan Skagafjörð, má finna rústir sem nefnast Sveinkahús. Er um að ræða rústir fjárhúss sem kennt var við Svein Jónsson frá Þangskála. Um rústirnar segir svo í Byggðasögu Skagafjarðar

Sunnan við Kelduvíkurbotn eru húsarústir, kallaðar Búðarhús. Þar hafa fyrrum verið sjóbúðir en síðar byggði þar Sveinn Jónsson frá Þangskála fjárhús úr klömbruhnausum og var eftir það kallað Sveinkahús.

Jörðin var skráð af Byggðasafni Skagfirðinga sem hluti af átaksverkefni Minjastofnunar Íslands, Strandminjar í hættu. Í lýsingu tóftarinnar segir: 

Tóftin er 6x11 m að utanmáli og snýr nálega norður/suður. Dyr hafa verið í húsin að sunnan og innangengt í heytóft sem er norðan við fjárhúsin. Veggir eru að mestu hlaðnir úr klömbruhnaus með streng á milli en neðst er grjóthleðsla. Veggir eru 30-80 cm háir og 1-1,5 m á breidd, nokkuð rofnir. Garði er ekki greinanlegur. Sjórinn hefur þegar rofið af tóftinni að norðan.

Svanfríður Steinsdóttir, eigandi Kelduvíkur á þeim tíma sem skráningin fór fram, sagðist hafa heyrt að áður hefði staðið naust þar sem Sveinkahús voru síðar reist. Aldur Sveinkahúss er ekki að fullu þekktur en Sveinn Jónsson sem byggði þau, var fæddur á Þangskála 1902 en stundaði búskap þar frá 1929 til 1967 en Þangskáli er næsta jörð við Kelduvík. Miðað við lýsingar Svanfríðar er Sveinkahús byggt á rústum eldri byggingar, naustsins, og því eru byggingarnar aldursfriðaðar vegna 100 ára aldurs. Við Þangskála er fjöldi merkra minja sem einnig voru skráðar í verkefninu Strandminjar í hættu. Mikil hætta stafar af landbroti á þessu svæði, líkt og á flestum öðrum minjastöðum sem eru við strandlengjuna.

Fyrsta heimild um byggð í Kelduvík er sennilega rekaskrá Þingeyrarklausturs frá 1285 þar sem nefndar eru jarðirnar Græna-Brekka, Ósland og Kelda, en talið er nokkuð víst að í tilfelli Keldu sé um að ræða Kelduvík. Næst kemur bærinn fram í rekaskrá Hólastaðar frá 1372 og er hann þá kominn í eigu biskupsstólsins. Á 17. og 18. öldinni kemur jörðin fyrir í ýmsum lýsingum og jarðamati, m.a. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Samkvæmt Jarðabókinni virðist hafa verið frekar fátlæklegt bú á Kelduvík og búskapur lítill en þar fiskaðist hins vegar vel. Segir þar að ábúandi reki einn bát og gangi það vel, enda aðstæður fyrir heimræði mjög góðar. Tekið er sérstaklega fram að lending sé góð, og má þá velta fyrir sér hvort átt sé við naustið sem stóð áður þar sem nú eru rústir Sveinkahúss.

Árið 1924 fór jörðin í eyði og var hún þá nytjuð frá Hrauni allt til ársins 1959 þegar hún komst aftur í byggð. Kelduvík fór svo aftur í eyði 1967 en íbúðarhús hefur verið nýtt sem sumarbústaður eigenda síðan þá.

23.-desSveinkahusThangskali

22. desember

Hjarðarholtskirkja

Hjarðarholtskirkja í Laxárdal er timburkirkja, reist árið 1904. Hönnuður kirkjunnar er Rögnvaldur Ólafsson, arkitekt, og var hún fyrsta kirkjan sem reis hér á landi með hans höfundareinkennum. Áður hafði hann teiknað Hrepphólakirkju, sem reist var 1903, og var hún líkari hefðbundnum sveitakirkjum á Íslandi. Hjarðarholtskirkja er ein af þremur krossmynduðum kirkjum Rögnvaldar, hinar eru Húsavíkurkirkja og Breiðabólstaðarkirkja í Fljótshlíð. Aðrar frægar byggingar Rögnvaldar eru m.a. Vífilsstaðaspítali og Sóleyjargata 1 (skrifstofur forsetaembættisins). 

Hjarðarholt hefur lengi verið kirkjustaður og virðist kirkja vera komin þar eigi síðar en snemma á 12. öld. Bærinn er nefndur í ýmsum fornum sögum, svo sem Laxdæla sögu, og eiga ýmsar frægar persónur úr sögunum að hafa haft þar búsetu eða viðveru, t.a.m. Þorgerður dóttir Egils-Skallagrímssonar, Sighvatur Sturluson og Halldór sonur Snorra goða. 

327

Árið 1901 tók Ólafur Ólafsson við prestskap í Hjarðarholti og var þá gamla kirkjan orðin léleg. Hann fékk Rögnvald Ólafsson til að teikna nýja kirkju og var tillaga Rögnvaldar krossbyggð kirkja, 16 álnir á lengd og 8 álnir á breidd með oddmynduðum gluggum og turni með spíru. Bárust teikningarnar Ólafi árið 1903 og var kirkjan reist árið 1904 eins og áður sagði. Kirkjustæðið var reyndar fært úr kirkjugarðinum og yfir á gamla bæjarstæðið. Tvær klukkur eru í kirkjuturninum og ekki er vitað hvaðan þær hafa komið en þó er talið að klukkurnar séu eldri en kirkjan sjálf. Á annarri klukkunni er áletrun: BIADNE BIADNESSEN A ATNERBAILE 1720. Hér er sennilega átt við Bjarna Bjarnason frá Arnarbæli en hann fæddist um 1644 og lést 1723. Bjarni var í námi við Skálholtsskóla í tvö ár en árið 1688 gerðist hann bóndi í Arnarbæli og fyrir þann tíma bjó hann á Hesti í Önundarfirði. Bjarni bjó í Arnarbæli til æviloka.

Í tilefni af 50 ára afmæli Hjarðarholtskirkju árið 1954 var ákveðið að ráðast í viðgerðir og endurbætur á kirkjunni. Var niðurstaða þeirrar framkvæmdar sú að miklu var breytt bæði varðandi innra og ytra byrði byggingarinnar. Árið 1989 var ljóst að fara þyrfti aftur í viðgerðir á kirkjunni og var Leifur Blumenstein, byggingarfræðingur, fenginn til þess vandasama verks að endurgera kirkjuna í upprunalegri mynd. Tókst hann á hendur miklar rannsóknir á kirkjunni, lagði fram áætlun um viðgerð og stóðu framkvæmdir yfir á árunum 1990-1996. Hjarðarholtskirkja var friðlýst árið 1990 enda þykir mikið prýði af kirkjunni.

Á Þjóðminjasafni Íslands eru til tveir rúnasteinar frá Hjarðarholti en Daniel Bruun, danskur fornleifafræðingur, færði safninu steinana árið 1899. Annar steinninn hafði verið notaður sem þröskuldur í dyrum Hjarðarholtskirkju og er hann talinn elstur varðveittra íslenskra rúnalegsteina, eða frá fyrri hluta 14. aldar. Á þeim steini stendur: her : ligr : hallr : arason (hér liggur Hallur Arason). Talið er að um sé að ræða annaðhvort Hall, sem bjó á Höskuldsstöðum um 1192 eða Hall Arason frá Jörfa, sem nefndur er í Sturlungu og var uppi á 13. öld. Ekki er hægt að segja til um með vissu hvorn Hallinn er átt við. 

Runasteinar

© Samsett mynd af rúnasteinunum tveim. Sarpur, Þjóðminjasafn Íslands.

Hægri: Bjarni Bjarnason | Vinstri: Hér liggur Hallur Arason

Hinn rúnasteinninn er gerður úr líparíti, svokallaður baulusteinn og er talinn vera frá 16. öld. Vantar á hann báða enda og er einungis hægt að greina nafnið Bjarni Bjarnason í rúnaletrinu. Skyldi þetta vera sá hinn sami Bjarni og er nefndur á kirkjuklukkunni, Bjarni frá Arnarbæli?

22.-desHjardarholt-24-6-09-51Hjardarholt-24-6-09-62

21. desember

Sandfell í Öræfum

Sandfell er eyðibýli eitt í Öræfasveit. Sandfell er landnámsjörð og er hennar getið í Landnámu. Á bænum bjó fyrst Þorgerður sem var ekkja Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnarsonar. Ásbjörn fórst á leiðinni til Íslands, en Þorgerður og synir þeirra komust heil á húfi til landsins og námu þau land á milli Kvíár og Jökulsár.

Ásbjörn hét maður, son Heyjangurs-Bjarnar hersis úr Sogni; hann var son Helga Helgasonar, Bjarnarsonar bunu. Ásbjörn fór til Íslands og dó í hafi, en Þorgerður, kona hans, og synir þeirra komu út og námu allt Ingólfshöfðahverfi á milli Kvíár og Jökulsár, og bjó hún að Sandfelli og Guðlaugur, son þeirra Ásbjarnar, eftir hana; frá honum eru Sandfellingar komnir. Annar son þeirra var Þorgils, er Hnappfellingar eru frá komnir. Þriðji var Össur, faðir Þórðar Freysgoða, er margt manna er frá komið.

Fyrir eldgosið í Öræfajökli árið 1362 hét byggðin sem Sandfell tilheyrði Litla-Hérað, en var endurnefnd Öræfi eftir að gosinu lauk. Þá tilheyrðu a.m.k. 30 bæir Litla-Héraði, allt frá Morsárdal og yfir að Breiðumörk. Gosið og jökulhlaupin fóru svo illa með byggðina að það sem áður var gjöfult landbúnaðarsvæði breyttist í mikla auðn. En þrátt fyrir þetta áfall byggðist sveitin upp aftur. Fyrir gosið mikla var hálfkirkja á Sandfelli en Sandfellskirkja tók við sem höfuðkirkja af Rauðalækjarkirkju, sem fór afar illa í gosinu. Það er þó talið að prestsetur hafi ávallt verið á Sandfelli frá siðaskiptum. Sandfellskirkja gegndi hlutverki höfuðkirkju allt til ársins 1914 þegar hún var rifin og Hofskirkja tók við sem sóknarkirkja Öræfinga. Prestsetur var þó á Sandfell allt til ársins 1931 þegar séra Eiríkur Helgason flutti til Bjarnaness frá Sandfelli.

Talið er líklegt að bæjarhúsin á Sandfelli hafi ávallt staðið á svipuðum stað og Þorgerður, landnámskona, valdi upprunalega en bærinn hefur þó verið endurreistur nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Þegar eldgos varð aftur í Öræfajökli árið 1727 fór Sandfell illa út úr hamförunum en þá var messa í Sandfellskirkju og rann gosið báðum megin jarðarinnar og fórust alls þrír, ásamt fjölda fjár.

Sandfell fór endanlega í eyði þegar bærinn var rifinn árið 1974, en síðasta gröfin var tekin í kirkjugarðinum árið 1950. Á Sandfelli leynist fjöldi minja frá rúmlega þúsund ára búsetu á bænum, en staðurinn er aðeins eitt margra dæma um jörð á Íslandi sem ekki hefur enn verið fornleifaskráð á vettvangi og eru því ekki til neinar uppmælingar þaðan. Þó eru til nokkuð ítarlegar teikningar af bæjarstæðinu, kirkjunni og öðrum mannvirkjum frá árinu 1973 eftir danska arkitektúrnema á vegum Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn.

Teikningar

Enn má sjá rústir Sandfells við rætur Sandfellsfjalls skammt frá þjóðveginum og auðvelt er að bera kennsl á bæjarstæðið því þar stendur eitt og yfirgefið tólf metra hátt reyniviðartré. Tréð var gróðursett árið 1923 af Þorbjörgu Oddbergsdóttur og var það nefnt tré ársins árið 2015 af Skógræktarfélagi Íslands. Árið 2002 var afhjúpaður minningarsteinn á Sandfelli. Steininn var reistur af börnum séra Eiríks Helgasonar til minningar um Þorgerði landnámskonu og fjölskyldu hennar.

21.-des

Lmi_maelingamenn_Sandfelli_1902

  © Mælingamenn við Sandfell árið 1902. Ljósmynd frá Landmælingum Íslands.

Sandfell-6

    © Bæjarstæðið á Sandfelli árið 2003.  

Moggi-sameinad

© Lesbók Morgunblaðsins, árið 1963 (vinstri) og 1964 (hægri).

20. desember

Fremri-Fjöll í Kelduhverfi

Á Fremri-Fjöllum er aldursfriðað minjasvæði, um 360x600 m að umfangi, og er þess fyrst getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Af þeim tíu tóftum sem þar hafa verið skráðar eru tvær skálalaga tóftir. Af tóftunum á svæðinu ber mest á beitarhúsum frá 19. og 20. öld. Sunnan við tóftaþyrpinguna er svo stórt og flókið garðakerfi.

Sumarið 2011 gerðu starfsmenn Fornleifastofnunar Íslands ses. rannsókn á garðlögum í Kelduhverfi og var þá tekinn könnunarskurður í garðlag austan við Fremri-Fjöll. Niðurstaða gjóskulagafræðings var að garðurinn hefði verið hlaðinn löngu fyrir árið 1410, og hann væri mögulega frá 10. öld. Engin ummerki sáust um endurbyggingu eða viðhald á garðinum. Árið 2020 gerði Stefán Ólafsson, fornleifafræðingur, litla rannsókn á bæjarstæði Fremri-Fjalla á skálalaga tóft sem er um 44x15 m að stærð. Frumniðurstöður þessarar rannsóknar virðast benda til þess að um hafi verið að ræða sambyggt íveruhús og fjós og að búsetan hafi verið skammvinn á staðnum.

Í Kelduhverfi er mikill fjöldi eyðibýla og eru mörg þeirra vel varðveitt. Mörg þessara eyðibýla eru með fleiri en einni túngirðingu umhverfis. Flest virðast þau vera forn en í raun er lítið vitað um aldur þeirra eða hlutverk. Rannsóknin sem gerð var árið 2011 á garðlögum í Kelduhverfi sýndi fram á að þau hafi, í það minnsta, ekki verið byggð síðar en á 10.-13. öld. Það er því með nokkurri vissu hægt að leiða líkur að því að búseta hafi verið á staðnum á þessum tíma, hvort sem hún hefur verið tímabundin eða föst.

20.-des

Ljosmyndari-Unnsteinn-Ingason

Beitarhúsin sem nefnd eru í textanum má sjá vel fyrir miðri mynd.  Ýmis mannvirki, rústir og garða, má einnig greina á myndinni. Ljósmynd: Unnsteinn Ingason.

Ljosmyndari-Unnsteinn-Ingason-2-

Hér eru beitarhúsin einnig vel greinanleg til vinstri. Ljósmynd: Unnsteinn Ingason.

19. desember

Skyrleysa

Á Barðaströnd má finna friðlýstar minjar býlisins Skyrleysu. Bærinn stendur framarlega á flatlendi miklu rétt sunnan við Hreggstaðaá. Svæðið er að mestu móar en ræktunarland virðist engu að síður hafa verið gott. Bærinn var áður hjáleiga frá Hreggstöðum, sem stendur rétt rúma 300 m norðaustur af Skyrleysu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að Skyrleysa hafi farið endanlega í eyði nokkrum árum fyrr. Þá þegar hafði hún farið í eyði en verið byggð upp aftur til nokkurra ára. Í Jarðabókinni segir að jörðin „meinast ei kunna uppbyggjast án heimajarðarinnar [Hreggstaða] skaða, sökum grasþörfnunar.” Í túni Hreggstaða voru enn fremur tvær aðrar hjáleigur, Efra Hús og Innra Hús, báðar komnar í eyði og munu ekki byggjast aftur sökum þess skaða sem það mun valda heimajörðinni.

Minjar á svæðinu sem tengjast búsetu á Skyrleysu eru dæmigerðar fyrir lítið býli á miðöldum þar sem útgerð hefur verið stunduð. Á svæðinu má m.a. finna rústir bæjarhúsa, útihúsa og leifar túngarðs. Túngarðurinn hefst hjá ánni ofan við bæinn, liggur í um 300 m löngum sveig utan um svæðið áður en hann endar aftur við ána neðan við bæinn. Einnig er greinanlegur á yfirborði annar túngarður sem liggur ofan við fyrrnefndan túngarð. Hefst hann við ána litlu ofar en liggur síðan niður að sjó í stað þess að sveigja. Gætu þetta verið merki um að bóndinn að Skyrleysu hafi stækkað það svæði sem hann vildi loka af og þannig náð að loka allri tungunni milli árinnar og sjávarbakkans. Við þennan ytri garð niður við sjávarbakkann eru tvær allmiklar girðingar, e.t.v. nátthagar. Á sjávarbakkanum neðan við bæinn má síðan finna fleiri minjar, líklegast rústir sjóbúða, hjalla og nausts.

Kristján Eldjárn, þáverandi forseti Íslands og fyrrverandi þjóðminjavörður, fór að minjunum um mitt ár 1979 og hafði þetta um þær að segja: „Ég tel mjög aðkallandi að friðlýsa þetta allt, áður en einhver ósköp dynja yfir það. Best væri að mæla það allt upp, en talsvert verk er það. Aðstaða er þó ágæt og yfirleitt er þetta mjög skemmtilegur minjastaður. Þarna er allt sem einum bæ heyrir.” Minjarnar voru svo friðlýstar í lok árs 1980 af Þór Magnússyni, þjóðminjaverði. 

19.-des

Skyrleysa

SkyrleysaHorft yfir rústir Skyrleysu. Túngarðurinn er vel greinanlegur á myndinni.

Skyrleysa-naust

Naust neðan við Skyrleysu.

18. desember

Reykkofi einn á Djúpavogi 

Jólahátíðin nálgast nú óðfluga og margir vafalaust farnir að hlakka til. Undirbúningur er í fullum gangi og hafa einhverjir reykt kjöt til að hafa á borðstólnum um hátíðirnar, nú já eða bara til að gæða sér á eða gefa. Að reykja matvæli er gömul aðferð sem lengi hefur verið notuð til að bæta bragð og eiginleika matvæla. Líklega hefur hún þó verið notuð fyrst og fremst sem geymsluaðferð hér áður. Þessu ákveðna handverki hefur verið viðhaldið í gegnum tíðina en aðferðir við reykingu, undirbúning og efnisval eru fjölbreyttar og geta verið ólíkar milli bæja.

Í Íslandslýsingu sem kennd hefur verið við Odd Einarsson og er frá lokum 16. aldar segir:

Að vísu er skortur salts á Íslandi meiri en svo, að það nægi til að salta niður kjöt og önnur matvæli, en samt verður matur þessi heilnæmur og ekki óljúfengur, eftir að kjötið hefur verið þannig reykt í rúmgóðu kjötbúri, að nauðsynlegt loft komist að því um leið.

Matvæli voru hér áður reykt í hlóðaeldhúsum og voru hangikjöt, pylsur og önnur matvæli látin hanga yfir eldstæðinu upp í rót eða rjáfri. Þegar eldavélar leystu hlóðirnar af og torfbæirnir lögðust af þá fengu gömlu hlóðaeldhúsin nýtt hlutverk þar sem slátur var soðið, þvottur jafnvel þveginn en matvæli voru þó áfram reykt þar.

Á 20. öld var algengast að reykja í torfhúsum en þekkt var að byggt hafi verið yfir hraungjótur, þak sett yfir inngrafna hóla og reykur leiddur í tunnur. Það er þó ekki fyrr en gömlu hlóðaeldhúsin lögðust af að kofareykingar komnar til sögunnar. Þá voru sums staðar byggð ný reykeldhús eða reykhús sem voru notuð til þess að reykja matvæli, en einnig voru aðrir kofar á bænum stundum nýttir til þess, t.a.m. gamlir geitakofar, hesthús, hrútakofar og smiðjur. Þegar líður á öldina verður þó algengara að menn reisi sérstök reykhús.

Tæpa 40 m norðan við íbúðarhús Steinstaða innan Djúpavogs er gamall reykkofi. Um er að ræða látlausan kofa sem er hlaðinn upp að klettavegg sem myndar jafnframt vesturgafl hússins. Í tengslum við fornleifaskráningu innan þéttbýlis Djúpavogs árið 2017 var kofinn skráður. Þá var hann enn með þaki en annars að hruni kominn. Þegar minjavörður skoðaði svæðið á vettvangi í desember 2020 hafði þakið gefið sig og hrunið ofan í tóftina svo aðeins standa útveggirnir eftir. Er þetta eðli bygginga sem falla úr notkun og hætt er að halda við. Smátt og smátt verða þær aftur hluti af náttúrunni þótt ummerki mannsins hverfi aldrei að fullu. 

18.-des

Reykkofi-Steinsstadir-mynd-FSI2020-12-06

© Fornleifastofnun Íslands ses. tók vinstri myndina við fornleifaskráningu árið 2017 en sú hægri er tekin af minjaverði Austurlands í desember 2020.

IMG_0478-2

© Þuríður Elísa Harðardóttir, minjavörður Austurlands tók þessa mynd af reykkofanum árið 2016.

17. desember

Myrkárdalur

Myrkárdalur er lítill dalur sem liggur nær beint til vesturs inn af Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu. Þar er að finna gamalt bæjarstæði sem gengur undir sama nafni. Bærinn fór í eyði á 14. öld þegar íbúar neyddust til að flytja búferlum vegna skriðu sem féll á bæinn. Rústir Myrkárdals voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði, árið 1930. 

Djakninn-a-MyrkaBæjarrústirnar sjást enn vel á yfirborði og má þar greina þó nokkur herbergi sem tengjast með gangi, ásamt fleiri mannvirkjum. Við bæjarstæðið standa tveir öskuhaugar sem grafnir voru könnunarskurðir í á árunum 2008-9. Í þessum skurðum fundust gripir sem aldursgreindir hafa verið frá seinni hluta 16. aldar og fram á 18. öld. Rannsóknin á öskuhaugunum í Myrkárdal var hluti af stærra rannsóknarverkefni í Eyjafirði, Gásir Hinterlands Project, sem unnið var af Fornleifastofnun Íslands ses. í samstarfi við NABO (North Atlantic Biocultural Organisation).

Um Myrkárdal rennur áin Myrká. Talið er að nafn hennar sé til komið vegna þess að bakkar gilsins sem hún rennur um hafi verið skógi vaxnir beggja vegna árinnar og því hafi verið „myrkur“ í djúpu gilinu. Í mynni dalsins er bærinn Myrká sem er þekktur fyrir að vera sögusvið þjóðsögunnar um djáknann á Myrká sem er ein frægasta íslenska draugasagan. Hún segir frá sambandi djáknans á Myrká og Guðrúnar frá Bægisá.


Djákninn og Guðrún ríða í tunglskininu, tréstunga eftir Théodore Meyer-Heine eftir teikningu eftir Jules Worms„Máninn líður,

dauðinn ríður;

sérðu ekki hvítan blett

í hnakka mínum,

Garún, Garún?“

(höf. ókunnur)

17.-des


Myrkardalur


TeikningNYTT

Teikning: Fornleifastofnun Íslands ses.

16. desember

Kolupottur

„Kolugil heitir bær einn framarlega í Víðidal fyrir austan Víðidalsá. Þar bjó tröllkona ein sem Kola hét og dró bærinn nafn af henni”. Svo segir frá bænum Kolugili í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Kolugils er fyrst getið í rituðum heimildum frá 1394 og er jörðin þá í eigu Víðidalstungukirkju. Skammt frá bænum eru gljúfur Víðidalsár sem kölluð eru Kolugljúfur. Sagt er að þar hafi Kola búið og má finna örnefni tengd henni í gljúfrinu og nágrenni þess. Kolugljúfur og önnur náttúrufyrirbæri tengd þjóðsögunni um Kolu flokkast sem fornleifar þrátt fyrir að ekki sé um áþreifanlegar minjar að ræða, líkt og rústir eða túngarða t.d.

Þar sem áin fellur í gljúfrið eru fossar sem heita Kolufossar og á vesturbakka gljúfranna er sylla sem kölluð er Kolurúm eða Kolusæng og sagt er að þar hafi Kola haldið sig til á nóttunni. Háir hamrastallar standa uppi að framanverðu á syllunni til beggja hliða og sagt er að það séu bríkurnar á rúminu. Skammt frá Kolurúmi er mikil hola í bergið að vestan og er hún kölluð Kolupottur. Sagt er að Kola hafi legið í rúmi sínu, teygt sig úr því niður í hylinn undir fossinum og náð sér þar í laxa til átu sem hún hafi síðan eldað í Kolupotti. 

16.-des16.des_mynd

Mynd af Kolugljúfrum. Efri örin vísar á Kolurúm og sú neðri á Kolupott. Myndin er fengin úr skráningarskýrslu frá Byggðasafni Skagfirðinga.

Facebook-Hotel-Laugarbakki

Kolugljúfur, mynd fengin af Facebook síðu Hótel Laugarbakka. 

15. desember

Reykjanesvitar

Á Valahnúk á Reykjanesi var fyrsti ljósviti á Íslandi reistur árið 1878. Vitinn var áttstrendur, 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Ljóskerið ofan á var áttstrent, eins og vitinn, og koparhvelfing yfir. Vitinn var tveggja hæða neðan ljóskersins og voru þar vistarverur fyrir vitagæslumennina sem voru tveir í vitanum á hverri nóttu meðan logaði á honum frá 1. ágúst til 15. maí.

Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið svo mikið af Valahnúk að hætta var talin á að vitinn myndi hrynja í sjóinn. Því var ákveðið að byggja nýjan vita á Vatnsfelli aðeins fjær ströndinni. Nýi vitinn var tekinn í notkun í mars 1908, en gamli vitinn var felldur með sprengingu 16. apríl 1908. Leifarnar af gamla vitanum má enn sjá í hrúgu við rætur Valahnúks.

Reykanesviti yngri stendur enn efst á Vatnsfelli. Hann var hannaður af Frederik Kiørboe, arkitekt, og Thorvald Krabbe, verkfræðingi. Reykjanesviti er sívalur kónískur turn, 20 m hár, og stendur á breiðri 2,2 m hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4,5 m á hæð og er heildarhæð vitans 26,7 m.

Árið 1929 var byggt við vitann anddyri og gashylkjageymsla úr steinsteypu eftir teikningum Benedikts Jónassonar, verkfræðings. Um 1980 var sett nýtt þak á ljóshúsið og lofttúðu breytt. Handrið úr steypujárni umhverfis ljóshúsið var fjarlægt um 1990 og stálhandrið sett í staðinn.

Reykjanesviti var friðlýstur 1. desember 2003. Friðlýsingin tekur til ytra og innra borðs vitans, ljóshúss og viðbygginga. Þar með eru talin linsa, linsuborð og lampi, hurðir, gluggar, stigi og handrið. Friðlýsingin nær einnig til umhverfis vitans í 100 m radíus út frá vitanum og göngustígs með þrepum frá fyrrum vitavarðarhúsi undir Bæjarfelli.

Búsetulandslagið sem er að finna í nágrenni við vitavarðabústaðinn gerir svæðið umhverfis vitann að mjög áhugaverðum minjastað þar sem hægt er að skoða fornleifar og byggingararf, allt á sama svæðinu.

15.-des

Reykjanesviti

Reykjanesviti-ljosmynd

Reykjanesviti yngri á Vatnsfelli.

14. desember

Gvendarlaug í Bjarnarfirði

Það hýrnaði yfir mörgum pottverjum landsins þegar sundlaugar voru loks opnaðar í lok síðustu viku enda er slökun og spjall í heitum potti aldalöng hefð á Íslandi. Um það vitna hinar mörgu fornu heitu laugar sem finna má víðsvegar um landið. Eina slíka forna laug, Gvendarlaug, má finna rétt ofan við gamla skólann á Laugarhóli í Bjarnarfirði, Kaldrananeshreppi.

Elstu heimildir um Gvendarlaug ná allt aftur á 13. öld þegar Guðmundur góði Hólabiskup á að hafa blessað hana og dregur laugin nafn sitt af honum. Laugin er setlaug sem hefur grafist í móbergsklöpp sökum uppstreymis heita vatnsins. Samkvæmt gömlum heimildum voru sæti hlaðin umhverfis laugina og hægt að hleypa vatni úr henni að vild. Hægt var að sitja á móbergsbrúninni og halla sér að hleðslunni. Langt fram á 20. öld var það siður Bjarnfirðinga að hittast við laugina á Þorláksmessu þegar farið var í jólabaðið. Laugin var orðin illa farin í lok síðustu aldar, hleðslan skökk og búið að loka lauginni með timbri. Hún var því endurhlaðin og löguð árið 1990 undir þeim formerkjum að engu mætti breyta frá fyrri gerð.

Guðmundur góði blessaði fjöldann allan af uppsprettum um land allt. Bera þær nafn hans og eiga það sameiginlegt að vatnið úr þeim var talið hafa lækningamátt, svo er einnig með vatnið úr Gvendarlaug. Ekki er lengur leyfilegt að nota laugina enda þolir hún illa mikinn ágang. Það er þó engin ástæða til þess að örvænta vilji maður njóta áhrifa hennar sem heilsulindar. Vatnið sem rennur úr lauginni blandast öðru sjálfrennandi vatni sem notað er í sundlaugina sem byggð var 1947 rétt neðan við fornu laugina. Því er enn hægt að njóta lækningamáttar vatnsins helga hafi fólk hug á því.

Gvendarlaug var friðlýst af Þór Magnússyni, þjóðminjaverði, árið 1988.

14.-des

ThESSI

Gvendarlaug í Bjarnarfirði

13. desember

Granagil ofan Búlands í Skaftártungu, Skaftárhreppi.

Hefð er fyrir því að líta svo á að í kumlunum fjórum sem komu í ljós í kjölfar uppblásturs í Granagiljum um 1890 hafi verið grafnir brennumenn á austurleið. Úr Njálsbrennu komst Kári Sölmundarson við illan leik og hefndi mága sinna og tengdafólks miskunnarlaust. Í Granagiljum sat hann, ásamt skemmtikraftinum Birni úr Mörk, fyrir Sigfússonum og Grana Gunnarssyni að því talið er. Í upphafi 20. aldar grófu nafnarnir Sigurður Jónsson á Búlandi og Sigurður Nordal í haugana. Kristján Eldjárn nefnir í kumlatali sínu að haugféð sé fremur lítilfjörlegt; leifar haugfjár sem í öndverðu hafi þó verið sæmilegt.  Nokkrir gripir úr kumlunum, auk fárra hrossbeina, skiluðu sér til Þjóðminjasafns Íslands. Jón Steffensen, læknir, skoðaði þær litlu mannabeinaleifar sem bárust  safninu, en beinavarðveisla á staðnum var mjög slæm. Var niðurstaða hans sú að þau bein tilheyrðu tveimur manneskjum, karli og konu. 

Kumlateigurinn í Granagiljum var friðlýstur af Matthíasi Þórðarsyni árið 1930, en skálarústin og aðrar tóftir sem liggja skammt frá eru aldursfriðaðar.

Á síðustu árum hefur Skaftártunga öll verið fornleifaskráð á vettvangi og er mikill fengur að þeirri skráningu. Með heildarskráningu svæðis er hægt að varpa frekara ljósi á sögu svæðisins, mögulega búsetuþróun og nýtingu, auk þess að leggja mat á hvað einkennir minjar svæðisins og hvaða minjar eru einstakar.

13.-des

Granagil

Uppmæling rústa í Granagiljum til vinstri, rústirnar og kumlateigurinn í Granagiljum séð saman  til hægri.

Granagil_10367

Kumlateigurinn í Granagiljum, uppblástur hefur leikið svæðið grátt.

Sigurdur-a-Bulandi-Sigrudur-Nordal-vid-fornleifarannsoknir-i-Granagili

Nafnarnir Sigurður Jónsson á Búlandi og Sigurður Nordal við uppgröft. Mynd: Sunnlenskar byggðir VI, Skaftárþing. 1985, bls. 285.

12. desember

Stekkjarrétt á Álfsnesi

Á Álfsnesi stóð áður býlið Álfsnes og hjáleigur þess voru Glóra og Háheiði. Einnig var búið í Þerney, sem er rétt handan sundsins, og á Álfsnesi stóðu hjáleigur Þerneyjar, þær Sundakot og Víðines. Á Glóru var búið fram undir 1900 en ekki er vitað með vissu hvenær byggð hófst þar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 var dýrleiki jarðarinnar reiknaður með heimajörðinni Álfsnesi. Þótt jarðarinnar sé fyrst getið árið 1705 er ekki hægt að útiloka að byggð hafi hafist þar fyrr. Í Jarðabókinni var Glóra einnig nefnd Urðarkot og Hallsneshjáleiga.

Í landi Glóru má finna fornleifar sem tengjast búsetu á jörðinni sem og minjar tengdar sjósókn. Helstu minjar tengdar sjósókn eru leifar af fiskbyrgjum en helstu búsetuminjar eru rústir bæjar- og útihúsa og garðlög. Stekkjarrétt er ein þeirra fornleifa sem tengjast búsetu, en um er að ræða grasi grónar leifar réttar sem staðsett er á svæði sem kallast Glórufit. Rústin er um 25 m á lengd og 12 m á breidd og veggjahæð er allt að 0,7 m. Steinar sjást í austur- og vesturhliðum hennar auk þess sem op er á henni á norðvesturhlið. Ekki er hægt að ákvarða aldur rústarinnar nákvæmlega nema fram fari frekari rannsóknir á henni, svo sem prufuskurðir, en áætlaður aldur hennar er miðbik 19. aldar. 

12.-des

Glora

Uppmælingar af minjunum á Glóru. Stekkjarrétt er efst á myndinni.

Stekkjarett_mynd

Stekkjarrétt. Myndin er fengin úr fornleifaskráningarskýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur.

11. desember

Hvannalindir 

Hvannalindir eru sérstæð vin í annars gróðursnauðri Krepputungunni þar sem lindavatn sprettur undan Lindahrauni. Hvannalindir voru lengi að mestu óáreittar af beit og ágangi manna þar sem Krepputungan liggur á milli beljandi Jökulár og Kreppu með Vatnajökul í suðri.

Hvannalindir fundust árið 1834 þegar Pétur Pétursson frá Hákonarstöðum á Jökuldal leitaði að góðri leið til að þvera landið. Pétur fann leið sem nefnist Vatnajökulsvegur og liggur um Hvannalindir. Þótt menn hafi fundið Hvannalindir þarna árið 1834 fundust meintar minjar útilegumanna á svæðinu ekki fyrr en um hálfri öld síðar. Sumarið 1880 var farinn könnunarleiðangur um svæðið til að leita óþekktra hagabletta. Voru þar á ferð Þingeyingar sem höfðu haft slæmar heimtur undanfarin ár og vildu vita hvað af fénu hefði orðið. Leiðangursmenn fundu í þessari ferð rústir kofa í Hvannalindum og töldu þær þá vera um 100 ára gamlar, eða frá seinni hluta 18. aldar. Voru þök húsanna víðast fallin en veggir stóðu enn vel. Fundu menn mikið af dýrabeinum inni í húsunum og utan þeirra auk þess sem tveir mosavaxnir sprekakestir stóðu utan við húsin.

Fornleifarannsókn var gerð á rústunum í Hvannalindum árið 1941. Stóð Kristján Eldjárn, síðar þjóðminjavörður og forseti Íslands, fyrir henni. Á svæðinu er að finna þrjú hús eða kofa og eina fjárrétt. Eru allar minjarnar á innan við 80 m löngu svæði í hraunjaðrinum. Mikið fannst af beinum í húsunum og utan þeirra. Mestmegnis voru þetta kinda- og hrossbein en einnig bein gæsa, rjúpna og álfta. Er af þessu ljóst að íbúar í Hvannalindum hafa lagt sér til munns bæði húsdýr og villta fugla. Sögur hafa gengið um að Fjalla-Eyvindur og Halla hafi hafst við í húsunum í Hvannalindum í lok 18. aldar, en hvort það er satt er óvíst.

Minjastofnun Íslands lét gera aldursgreiningu á þremur beinum úr rústunum haustið 2015. Var niðurstaða greiningarinnar að beinin væru fá 17.-18. öld, líklegast frá seinni hluta 18. aldar. Aldursgreiningin styður því túlkun þeirra sem fundu rústirnar í lok 19. aldar - að rústirnar hafi þá verið um 100 ára gamlar.

Minjarnar í Hvannalindum voru friðlýstar af Þór Magnússyni, þjóðminjaverði, árið 1969. 

11.-des

Hvannalindir-allt

Uppmæling af aðalrústinni í Hvannalindum til vinstri og öllu minjasvæðinu til hægri.

20150805_141223

Horft að inngangi aðlarústarinnar sem kúrir í hraunjaðrinum. Sjá má að rústin er girt af með kaðli, endar eru minjarnar og gróðurinn mjög viðkvæm. Sjá má gult friðlýsingamerki hægra megin við miðja mynd.

Tilgatuteikning-Hvannalindir-Thorhallur-Thrainsson

Tilgátuteikning sem Þórhallur Þráinsson, fornleifafræðingur, gerði fyrir Minjastofnun árið 2016 þegar unnið var að gerð upplýsingaskilta fyrir minjastaðinn í Hvannalindum.

10. desember

Krumsholt í Vopnafirði

Í Vopnafirði undir Krossavíkurfjöllum er að finna túngarðsleifar og tóftir þar sem heitir Krumsholt. Krumsholt er hluti af sögusviði Þorsteins þáttar Uxafóts en þar taka húsráðendur, Krumur Vémundarson og kona hans Þórgunnur Þorsteinsdóttir, að sér söguhetjuna Þorstein og ala upp eftir að hann var borinn út af móðurbróður sínum sem hvítvoðungur.

Sigurður Vigfússon lýsir minjunum í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1893 

Krumsholt heitir enn í dag stutta bæjarleið fyrir utan Krossavík; þar sést fyrir gömlum túngarði, og hefir túnið ekki verið stærra enn svo sem 1 ½ dagslátta; það er löngu í eyði.

Minjarnar voru mældar upp af starfsmönnum Fornleifaverndar ríkisins, forvera Minjastofnunar Íslands, árið 2007. Svo virðist sem að á staðnum séu allavega tvö til þrjú notkunarskeið. Nokkuð heillegt garðlag liggur umhverfis stærstan hluta minjasvæðisins og við garðinn hafa verið aðhöld á a.m.k. tveimur stöðum. Innan garðlagsins er að finna stóra tóft og hringlaga gerði sem ber mikið á, líklega fjárborg. Ef um fjárborg er að ræða er hún mögulega yngri en aðrar minjar svæðisins þar sem fjárborgir er sjaldan að finna nálægt híbýlum, enda voru þær ætlaðar til að veita fé skjól í beitarhögum. Norðan við garðlagið eru þrjár illgreinanlegar eldri tóftir. Virðast þær nokkuð eldri en aðrar minjar á staðnum og spurning hvort þar sé um að ræða hið forna Krumsholt sem fjallað er um í Þorsteins þætti Uxafóts. Minjarnar í Krumsholti hafa ekki verið rannsakaðar frekar og er ekki vitað um nákvæman aldur þeirra. Minjarnar voru friðlýstar árið 1930 af Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði.

Stikuð gönguleið liggur frá þjóðvegi við útsýnispall hjá Neðrifossi í Gljúfursá um Drangsnes, framhjá verbúðartóftum og nausti að Krumsholti.

10.-des

Krumsholt

Uppmælingar af minjunum í Krumsholti. Norður er upp á myndinni. Meintar elstu minjar á staðnum eru þrjár í röð nyrst á svæðinu.

SDC11690

Horft til suðurs yfir Krumsholt. Elstu minjarnar eru næst ljósmyndaranum. 

9. desember

Sæluhús við Jökulsá á Fjöllum

Jökulsá á Fjöllum var mikill farartálmi fyrr á öldum. Áin var hvergi talin reið, en lögferjur voru á stöðum þar sem umferð var mest. Haustið 1880 réð amtmaðurinn yfir Norður- og Austurumdæminu Jakob Hálfdanarson, bónda á Grímsstöðum, til að gera við og bæta póstveginn yfir Mývatnsöræfi og byggja sæluhús við Jökulsá. Landssjóður veitti fé til smíði hússins sem var valinn staður á vesturbakka árinnar og var kláfur yfir ána skammt þar frá.

Hafist var handa við að reisa sæluhúsið árið 1881, og það úr steini. Til verksins var fenginn Sigurbjörn Sigurðsson frá Hólum í Laxárdal og nýtti hann grjót úr nánasta umhverfi. Timbur, kalk, sement og önnur byggingarefni í húsið voru flutt alla leið frá Vopnafirði, Húsavík og Akureyri með aðkomu fjölda manna. Gamalíel Einarsson var fenginn að byggingu sæluhússins sumarið 1883 sem aðalsmiður hússins en Sigurbjörn Sigurðsson, Jakob Sigurgeirsson og Friðrik Guðmundsson áttu þar einnig stóran hlut.

Húsið er um 3 km norður af þjóðveginum. Það er 4,9 x 6,1 m að grunnfleti, hálfniðurgrafinn kjallari, jarðhæð og lágt ris. Gólf eru úr timbri og þak bárujárnsklætt. Kjallarinn var notaður fyrir hesthús, en á hæðinni eru tvö herbergi og skilrúm á milli þeirra úr þunnum fjölum. Í innra herberginu er ofn og rúmbálkur. Löngum var talað um að reimt væri í húsinu og að þar væri um að ræða dýr á stærð við vetrungskálf, kafloðið og ægilegt.

Þótt húsið láti lítið yfir sér hefur það í raun ferðast um allan heim því það er að hluta til sögusvið Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson sem hefur verið gefin út á yfir 20 tungumálum. Því getur fólk um allan heim lifað sig inní svaðilfarir Fjalla-Bensa við eftirleitir á Mývatnsöræfum og það skjól sem hann fann í litlu sæluhúsi við Jökulsá.

Sæluhúsið er aldursfriðað, eins og aðrar minjar 100 ára og eldri, og hefur verið í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1988. 

9.-des

Minjasafnid-a-Akureyri

Myndin á vinstri hönd kemur frá Minjasafninu á Akureyri.

Bfctvtzx

Myndin er fengin af vef Þjóðminjasafns Íslands.

8. desember

Völundarhúsið í Dritvík

Á Snæfellsnesi eru merkar minjar sem tengjast margar hverjar sjósókn og fiskveiðum. Í Dritvík er að finna heimildir frá miðöldum um útræði frá staðnum. Þar má líta mannvirki sem má segja að sé nokkuð einstakt hér á landi. Mannvirkið sem um ræðir kallast Völundarhús en það er hlaðið steinaröðum sem mynda um 11 hringi sem eru hver innan í öðrum. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður friðlýsti Völundarhúsið ásamt verbúðartóftunum í Dritvík árið 1928, en Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi teiknaði það upp um aldamótin 1900. Að sögn heimamanna hefur það verið endurhlaðið, sennilega um miðja 20. öldina. Orðið völundarhús er fyrst notað í rituðum heimildum hér á landi á 14. öld.

Skiptar skoðanir eru um hversu gömul völundarhúsin eru í raun og hvaða tilgangi þau þjónuðu. Þau eru þó talin rekja uppruna sinn til fornra menningarheima við Miðjarðarhaf. Í Skandinavíu hafa verið skráð nokkur hundruð völundarhús sem eru keimlík því sem finna má í Dritvík og er a.m.k. eitt þeirra talið vera frá járnöld. Það er staðsett í Ulmekärr (um 150 km norður af Gautaborg) í Svíþjóð, en þar í landi eru yfir 500 slík mannvirki skráð. Völundarhúsin finnast gjarnan við strendur og eru því talin tengjast verminjum eða lífi fólksins sem hafði aðsetur í verbúðum á milli fiskitúra. Margir telja að sjómenn hafi byggt það sér til dægrastyttingar á meðan þeir dvöldu í verum eða sem vonartákn um góða veiði. Aðrar sagnir tengjast frjósemi og makaleit en í Finnlandi hafa völundarhúsin einnig hlotið örnefnið jungfrudans. Að auki er heitið Trojaborg notað í Skandinavíu yfir völundarhús sem þessi.

Teikning-og-hernadur

Annars staðar erlendis er einnig að finna form eins og það sem er á Völundarhúsinu í Dritvík. T.a.m. má finna það í forn-indverska hetjuljóðinu Mahabarata, en þar er því lýst hvernig hermenn raða sér upp í fylkingu sem svipar til blómstrandi lótus. Þessi hernaðarfylking er kölluð Padmavyūha eða Chakravyūha og er henni oft líkt við völundarhús með mörgum varnarveggjum.

Völundarhús með þessu hringlaga formi hafa sést á ristum bæði hér á landi og erlendis. Meðal annars á breiðfirskri rúmfjöl sem er til sýnis í Safnahúsinu á Hverfisgötu í Reykjavík. 
Nú er í Dritvík daufleg vist,

drungalegt nesið kalda;

sjást ekki lengur seglin hvít

sjóndeildarhringinn tjalda,

Tröllakirkjunnar tíðasöng

tóna þau Hlér og Alda.

Fullsterk mun þungt að færa á stall,

fáir sem honum valda.

(Jón Helgason)

Eftirfarandi vísur voru kveðnar um Dritvík og Beruvík á Snæfellsnesi um 1914 og í þeirri seinni er Dritvík gefið nafnið Skítavík. 

Víkararnir velta sér

í veldi og alsælunni

en hún Bervík bölvuð er

byggð af ólukkunni. (höf. ókunnur) 


Þó ei sé Bervík burðarík

bágt mun hins að þræta

að lítt mun skömmin Skítavík

úr skák fyrir hinni bæta. (höf. ókunnur) 


8.-des

DJI_0075

Samsett mynd: Sú efsta er tekin með dróna af Völundarhúsinu í Dritvík af minjaverði Norðurlands vestra, Guðmundi S. Sigurðarsyni. Myndin hægra megin neðst er einnig frá Dritvík og er hún tekin af Guðjóni S. Kristinssyni. Vinstra megin neðst er svo mynd af völundarhúsinu í Ulmekärr í Svíþjóð: Hans Lundenmark, Vitlycke museum/Västarvet.

7. desember

Þorleifsstaðahellir Þorleifsstöðum, Rangárvöllum

Um 2 km austur af Þríhyrningi á Rangárvöllum er að finna rústir bæjarins Þorleifsstaða sem fór í eyði í Heklugosinu 1947, en bæjarins er fyrst getið í heimildum frá 13. öld. Meðal þessara minja, um 300 m austnorðaustur af bænum, eru fjórir manngerðir hellar, í barmi svonefnds Fiskárgils. Stígur liggur í austur frá gilbrúninni niður á grasbala sem er fyrir framan hellana og er hellirinn sem hér um ræðir, Þorleifsstaðahellir, vestastur í röðinni. Þorleifsstaðahellir, sem jafnframt er sá stærsti, var lengst af notaður sem fjárhús frá Þorleifsstöðum og tók hann um 80 fjár. Þorleifsstaðahellir var friðlýstur af Matthíasi Þórðarsyni árið 1927. Hellirinn er um 14 metra langur og 2,5 metrar að breidd og eru hlaðnir veggir fyrir hellismunann. Hvelfingin, sem er með með gotnesku oddboga-lagi, er um tveggja metra há við hellisopið en fer hækkandi eftir því sem innar dregur og nær hún mest um 3 m hæð innst. Hlaðnir garðar eru meðfram báðum langveggjum og eru þeir með steyptum plötum, en þeim var bætt við um 1920 af þáverandi bónda Sæmundi Jónssyni. Hlaðið eldstæði er innst í hellinum og þar fyrir ofan er strompur upp á yfirborð sem er a.m.k. 2 m hár, með grjóthleðslum. Lítil bjalla með kólfi er fremst í hellinum en óljóst er hvert hlutverk hennar hefur verið.

Eitthvað er um hellaristur í hellinum og er t.d. greinilegt krossmark við innganginn en aðrar eru óljósari. Brynjúlfur Jónsson fjallar nokkuð um hellinn í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1905. Þar lýsir hann dýrlingsmynd sem höggvin var í vesturvegg hellisins:

...úthöggvin mynd í umgjörð hefir verið á vestur-veggnum, nál 4 ¾ al. frá gaflinum. Því miður er myndin nú eigi heil; burt er fallið höfuð líkneskjunnar og alt ofan á brjóst. Neðri hlutinn er heill, en nokkuð máður, því þar hefir verið sett jata með hellisveggnum og hafa horn kindanna nuddast við myndina. Þó sér enn fyrir kviðar-bungunni og klæðafellingum niður frá henni, einnig fyrir kápubörmum báðum megin til hliða. Umgjörðin er alheil og nokurn vegin glögg. Hæð hennar er 2. al., en breidd út á brúnir ¾ al. Hún er fallega bogamynduð að ofan og svo beinar stoðir undir, nær 2 þuml. breiðar ... Því af umgjörðinni og því, sem eftir er af myndinni, er helzt að ráða, að það hafi verið dýrlingsmynd...

7.-des

Thorleifsstadir_Rangarvollurm_86002901_hellir_bjalla_N

Hellir-Thorleifsstadir

6. desember

Klaufanes

Kristján Eldjárn fyrrverandi forseti Íslands og fornleifafræðingur fæddist þann 6. desember árið 1916 á Tjörn í Svarfaðardal. 24 árum síðar, árið 1940, var Kristján aftur staddur á heimaslóðum en í þetta sinn var hann kominn til að grafa upp skálarúst í Klaufanesi. Í Svarfdæla sögu segir að Klaufi, dóttursonur Þorsteins svarfaðar landnámsmanns, hafi reist fyrsta bæ sinn niðri við Svarfaðardalsána í Klaufanesi. Kristján lýsir komu sinni að Klaufanesi í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1941: „Við fyrstu sýn bar ekki mikið á skálarústunum, en við nánari aðgæzlu sást greinilega votta fyrir báðum langhliðum og NA-gafli. Aftur á móti varð SV-gafl ekki séður á yfirborði. Allur var botn tóftarinnar kominn í stórgert þýfi eins og túnið, og lágu sums staðar djúpir skorningar gegnum veggina. Allt var grasi vafið“. Klaufanesrústirnar voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni, þáverandi þjóðminjaverði, árið 1930, en það var hann sem fól Kristjáni það verkefni að grafa upp skálarústina nokkrum árum síðar. Friðlýsing Klaufaness er enn í gildi en hafði þó nákvæm staðsetning skálarústarinnar glatast með tímanum. Dr. Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur hefur í seinni tíð sinnt ýmsum verkefnum í Svarfaðardal og hefur hann sýnt Klaufanesi sérstakan áhuga. Það var ekki fyrr en nú, árið 2020, sem honum, í samstarfi við hóp fornleifafræðinga, tókst að öllum líkindum að (endur)finna skálann í Klaufanesi. Við rannsóknina var notast við jarðsjármælingar og teknir borkjarnar sem fram fóru með leyfi Minjastofnunar Íslands.

6.-des

Skalarust

Eldstaedicopy

Eldstæðið í skálanum.


5. desember

Sjóminjar

Margir Íslendingar hafa undanfarna áratugi farið fljúgandi í verslunarferð fyrir jólin. Um aldir var hins vegar eina leiðin til að komast eða fara héðan af landi að sigla yfir hafið. Til hafsins var sóttur fiskur til heimilisnota og til að selja og um hafið komu verslunarskip að utan með varning sem ekki var hægt að fá í heimahaga. Fjölda skipa mun hafa þurft til að flytja landnámsmenn til landsins og í Íslendingasögum er getið um siglingar til og frá fjölda staða í landinu. Skipasiglingar færðust smá saman í hendur erlendra kaupmanna sem komu til landsins á vorin og sigldu utan í lok sumars og voru umsvif þeirra og áhrif slík að heilu tímabilin voru nefnd eftir þeim en enn er talað um ensku öldina (15. öld) og þýsku öldina (16. öld) í sögu Íslands. Þá jókst einnig sókn erlendra skipa á miðin í kringum landið og komu skip víða vegar að frá Evrópu gegnum aldirnar til að veiða fisk eða hval, frá Baskahéröðum Spánar, Hollandi, Frakklandi, Noregi og fleiri stöðum.

Skipasiglingar þessar settu mikinn svip á lífið í landi og eru miklar minjar til um verslun og útræði bæði innlendra og erlendra sjómanna við strendur landsins en þær eru margar óðum að hverfa í sjóinn sökum strandrofs. Þá áttu ekki öll skip afturkvæmt heim en fjöldinn allur af skipum fórust við strendur Íslands. Ekki er vitað með vissu hversu mörg þau eru en vitað er að yfir 400 frönsk skip fórust á miðunum við þorskveiðar, meirihlutinn á 19. og 20. öld og er það einungis brot af heildarfjöldanum. Á hafsbotni leynast þvi ótal flök sem bera vitneskju um lífstaug Íslands við meginland Evrópu í gegnum aldirnar en eingöngu örfá þeirra hafa verið skráð og könnuð.Mulaberg-Faskrudsfirdi

Vitnisburður um það sem kann að leynast í hafi skilar sér stundum í troll veiðimanna samtímans en Minjastofnun fær við og við tilkynningar um að hlutar af skútum, skipum eða annarskonar góss hafi skilað sér upp. Sem dæmi má nefna að í október á þessu ári drógu menn á skipinu Múlaberg upp leifar af gömlu skipi í Fáskrúðsfirði sem líklegast hefur til heyrt franskri skútu. Mikilvægt er að tilkynna slíka fundi til Minjastofnunar til að hægt sé að meta næstu skref í málinu og er fundarstaður þeirra mikilvægur.

5.-des

Hanefsstadareyrum-Seydisfjordur

Flak á Hánefsstaðareyrum í Seyðisfirði 

4. desember

Beinakerling

Á Sprengisandi, um það bil í miðju landinu, eru vörður sem kallaðar hafa verið Beinakerling og dætur hennar. Um er að ræða a.m.k. sjö vörður en fleiri ef stakir steinar ofan á öðrum eru taldir með. Veglegasta varðan er mosavaxin og sker sig þannig úr berum sandinum og gróðurleysinu. Í henni má finna beinaleifar. Hún hefur því verið nefnd beinakerling og aðrar vörður í nágrenninu eru „dætur“ hennar. Ein varðanna er gerð þannig að steinhella er reist upp á rönd en vörður voru stundum hlaðnar þannig að hellur voru látnar vísa í ákveðnar áttir svo að menn gætu „áttað“ sig og tekið rétta stefnu.

Vörðurnar eru að upplagi ævafornar. Víst er að þeim hefur verið haldið við í gegnum aldirnar og nýjum jafnvel bætt við. Þær stóðu við hinn forna Sprengisandsveg sem var notaður frá landnámi og fram á 16. eða 17. öld þegar ferðir um hann lögðust af.

4.-desLjosmynd

Midpunktur_1607075757483

3. desember

Bollasteinninn við Selárdalskirkju

Steinninn stendur rétt fyrir sunnan gangstíg þann sem er milli bæjar og sáluhliðs. Hann er um 85 cm að hæð, mjög reglulega lagaður og ferstrendur. Í hann að ofan hafa verið gerðar 3 skálar eða bollar, nær hálfkúlumyndaðir. Munnmæli segja að Árum-Kári, prestur í Selárdal, hafi einhvern tímann í fyrndinni borið stein þennan heim ofan frá Bogahlíð í kyrtilskauti. Um það er svo kveðið:

Það var maður á þeirri tíð,

þróttarmikill dári:

Bar heim stein úr Bogahlíð

burðugur Árum-Kári.


Í annarri munnmælasögu segir að títt hafi verið að hella vatni í skálarnar á steininum á hverjum degi og svo sé sagt, „að Kári hafi mælt svo fyrir, að eigi mundu fleiri mjaltakonur verða í Selárdal, en svo, að skálar þessar nægðu þeim, til að þvo mjölt af höndum sjer í þeim“. Steinninn var friðlýstur árið 1930 af Matthíasi Þórðarsyni, þáverandi þjóðminjaverði.

3.-desBollasteinn-Selardal

Selardalsk-72A-2a

2. desember

Sæluhúsið á Fagradal

Leiðir liggja til allra átta og þannig hefur það verið frá upphafi byggðar á Íslandi. Landið var lengi vel ekki ríkt af góðum samgönguleiðum hvort sem leiðin lá einungis milli bæja, kirkna og selja eða þegar farnar voru lengri leiðir, svo sem til kaupstaða sem langt voru frá bæ, milli héraða og yfir hálendi. Fram undir aldamótin 1900 voru samgönguhættir hér á landi mjög bágbornir en með vegalögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 1894 stóð til að bæta þar úr. Meðal verkefna sem þá voru sett á laggirnar var lagning flutningsbrautar fyrir hestvagna um Fagradal í Suður-Múlasýslu. Þegar verkefnið síðan fór af stað nokkrum árum síðar var ákveðið að byggja kofa eða sæluhús á miðjum dalnum fyrir menn og hesta. 

Kofinn gegndi mikilvægu hlutverki sem skjól fyrir ferðalanga á ferð í dalnum en til eru frásagnir af mönnum sem máttu dúsa í honum svo dögum og jafnvel vikum skipti þegar óveður gekk yfir svæðið. Ekki er vitað með vissu hvenær þetta eldra sæluhús var rifið en nýtt sæluhús var byggt árið 1940 af Vegagerð ríkissjóðs. Um sæluhúsið segir í árbók Ferðafélags Íslands frá 1940: “[...] milli Héraðs og Reyðarfjarðar, um vatnaskil á miðjum dal. Vistlegt og vandað. Byggt 1940 úr timbri, járnklætt, 4,5 x 3,8 m að stærð, fordyri og rúmgóð stofa með 6 rúmstæðum og eldavél. Nokkuð svefnrými á bitalofti. Gamla sæluhúsið stendur rétt hjá og er nú notað fyrir hesta.” 

Sæluhúsið er ekki aldursfriðað en það er þó vitnisburður tegund bygginga sem er hægt og rólega að hverfa og mikilvægt er að gefa gaum.

2.des333-Hus-jolasveinsins-a-Fagradal-milli-Reydarfjardar-og-Egilsstada-GV2017-03-02-17.47.02

1. desember

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni austan við Grindavík eru minjar sem taldar eru frá landnámsöld. Það sem gerir minjarnar einstakar er að hraunið hefur runnið umhverfis og inn í hús sem þarna stóðu, þeirra á meðal skála. Á staðnum má vel sjá móta fyrir skálanum og brunaleifum af þakstoðum skálans. Þessi minjastaður er einstakur á heimsvísu, rétt eins og minjarnar í Pompei sem sýna hvernig fólk reyndi að forða sér þegar Vesúvíus gaus árið 79 e.Kr. Minjarnar í Húshólma eru áhugaverðar og verðmætar fyrir samfélagið eins og þær hafa varðveist ósnortnar í hrauninu.

1des_1606908158699DJI_0074Husholmi