Fara í efni

Átta arkitektar hlutu Minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar 2025

Átta arkitektar hlutu Minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar á málþinginu Framtíð fyrir fortíðina, sem haldið var í Iðnó þann 27. nóvember síðastliðinn.

Í tilefni af 50 ára afmæli Evrópska húsverndarársins veitti Minjastofnun Íslands arkitektum, sem eiga það sameiginlegt að hafa helgað húsvernd stærstan hluta starfsferils síns, Minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar 2025. Þau sem hlutu viðurkenninguna hafa öll, á einn eða annan hátt, komið að grasrótarstarfi í þágu minjaverndar og barist af hugsjón og eldmóði fyrir því að breyta viðhorfum nærsamfélags síns og þjóðarinnar allrar til eigin byggingararfs. Jafnframt hafa þau öll sinnt rannsóknum og ritstörfum á sviði íslenskrar byggingarsögu.

Viðurkenningarhafar:

  • Magnús Skúlason, arkitekt
  • Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt
  • Páll V. Bjarnason, arkitekt
  • Hjörleifur Stefánsson, arkitekt
  • Stefán Örn Stefánsson, arkitekt
  • Grétar Markússon, arkitekt
  • Þóra Bergný Guðmundsdóttir, arkitekt
  • Guðmundur Lúther Hafsteinsson, arkitekt

Í ávarpi Péturs H. Ármannssonar var sérstaklega minnst tveggja brautryðjenda íslenskrar húsverndar, Guðrúnar Ó. Jónsdóttur arkitekts og Harðar Ágústssonar myndlistar- og fræðimanns.

Guðrún var öflugur talsmaður húsverndar og í fararbroddi baráttunnar fyrir varðveislu Bernhöftstorfunnar. Auk þess beitti hún sér fyrir breyttum áherslum í skipulagi eldri hverfa þar sem horfið var frá þeirri stefnu að rífa niður gamlar byggingar og hefja þess í stað endurbyggingu þeirra og varðveislu.

Hörður var brautryðjandi í byggingarsögulegum rannsóknum og ritaði fjölda greina og bóka um ýmsa þætti íslensks byggingar- og myndlistararfs á innlendum og erlendum vettvangi. Hann átti jafnframt þátt í stofnun Húsafriðunarnefndar og sat í henni í 15 ár.

Minjastofnun Íslands þakkar viðurkenningarhöfunum kærlega fyrir mikilvægt framlag til minjaverndar á Íslandi undanfarna áratugi!

Upptöku af málþinginu Framtíð fyrir fortíðina má finna hér.

Dagskrá málþingsins má finna hér.