Fara í efni

Samstarfsverkefni

Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.

CARARE

Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd tóku saman þótt í Evrópuverkefninu CARARE. CARARE er netverk sem er ætlað að ýta undir vönduð vinnubrögð, samvinnu og samhæfingu þátttakenda og er styrkt af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (sjá ICT PSP). CARARE leiðir saman margar stofnanir og fyrirtæki með mismunandi hlutverk víðs vegar úr Evrópu til að koma á fót þjónustu sem mun gera stafrænt efni um fornleifar og sögustaði samhæft við vefgáttina Europena.

Verkefnið hófst 1. febrúar 2010 og mun standa yfir í þrjú ár. Meginmarkmið þess er að virkja og styðja við net minjavörslustofnana, fornleifafræðilegra safna, rannsóknarstofnana og sérhæfðra stafrænna gagnasafna við að:

  • gera stafræn gögn, sem þau hafa í sínum fórum um fornleifar og byggingararfinn, aðgengileg í gegnum vefgáttina Europeana,

  • samhæfa gögn og koma á fót gagnaþjónustu,

  • og gera það kleift að miðla áfram þrívíddargögnum og sýndarveruleika í gegum Europeana.

CARARE er eitt þeirra verkefna sem styrkt er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að ýta undir frekari þróun Europeana. Það mun gegna því mikilvæga hlutverki að fá net stofnana í Evrópu sem eru ábyrgar fyrir rannsókn, vernd og miðlun upplýsinga á minjastöðum, byggingararfinum, sögulegum bæjarkjörnum og iðnaðarminjum til að taka þátt í verkefninu. Stofnanir þessar vinna á mismunandi grundvelli, sumar á landsvísu, aðrar á mun minna svæði. Þátttaka þessara mismunandi stofnana mun ekki einungis leggja til fjölbreytt efni um minja- og byggingararfinn heldur einnig auka á fjölbreytni gagnasniða því CARARE stefnir að því að að gera tvívíddar og þrívíddar gögn um minjastaði samhæfð og aðgengileg í gegnum Europeana. Í dag standa að CARARE verkefninu 29 aðilar frá 20 löndum en stýring verkefnisins CARARE er í höndum Kulturarvsstyrelsen og MDR Partners.

Að verkefninu unnu, fyrir Íslands hönd, Sólborg Una Pálsdóttir, Sigurður Bergsteinsson hjá Fornleifavernd ríkisins og Guðlaug Vilbogadóttir hjá Húsafriðunarnefnd. Framlag Íslendinga var annars vegar gagnasafn um friðlýstar fornleifar á Íslandi og hins vegar gagnasafn um friðuð hús á Íslandi. Viðbótarstyrkir hafa fengist til að gefa námsmönnum tækifæri til að taka þátt í verkefninu og hefur það gefist afar vel fyrir alla aðila. Árið 2010 unnu að verkefninu, auk vinnuhóps, Unnur Magnúsdóttir fornleifafræðingur og mastersnemi í hagnýtri menningarmiðlun og Karl Emil Karlsson nemi í tölvunarfræði.