Fara í efni

Samstarfsverkefni

Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.

Menningarfskeppni unga fólksins

Menningararfskeppni unga fólksins 2021 - Young Heritage Makers Competition

Heritage_makers_twitter

Ísland tekur þátt í Menningararfskeppni unga fólksins 2021. Keppnin hefur verið haldin tvisvar áður og tók Ísland þátt í bæði skiptin, en hún er nú með aðeins breyttu formi.

Tilgangur keppninnar er að fá börn og ungmenni á aldrinum 6-17 ára til að skoða þann menningararf sem fyrirfinnst í þeirra nærumhverfi, hvort sem hann er áþreifanlegur eða óáþreifanlegur, og svara spurningunni: „Hver er evrópski menningararfurinn minn?“.

Leikreglur

Keppt er í tveimur aldursflokkum: 6-10 ára og 11-17 ára. Keppt er í hópum og hver hópur þarf að hafa leiðbeinanda (en. mentor) sem leiðir þátttakendur í gegnum ferlið og aðstoðar t.d. við að svara þeim spurningum sem keppnin leggur upp með. Leiðbeinendur geta verið kennarar, starfsmenn í frístundastarfi eða aðrir fagaðilar sem starfa með börnum og ungmennum, s.s. í skipulögðum tómstundum eða safnkennslu. Bakgrunnur leiðbeinenda getur verið ólíkur eftir löndum og aðstæðum. Hér má finna leiðbeiningar fyrir leiðbeinendur.

Nánar má lesa um keppnina hér og nákvæmar reglur má finna hér .

Mikilvægar dagsetningar:

3. september - Keppnin sett af stað á Íslandi

1. nóvember - Síðasti dagurinn til að skila inn verkefnum í keppnina á Íslandi

9. nóvember - Úrslit liggja fyrir á Íslandi; efstu fimm í hvorum aldursflokki, þar af sigurvegarar í hvorum aldursflokki. Sigurvegarar komast áfram í samevrópsku keppnina

12. nóvember - Samevrópska keppnin hefst, mat á sigurvegurum allra landa í hvorum aldursflokki

3. desember - Úrslit í samevrópsku keppninni kynnt

Nánari upplýsingar veitir Ásta Hermannsdóttir

Menningarminjakeppni Evrópu 2019 - European Heritage Makers Week

Í tilefni af Menningararfsári Evrópu árið 2018 stóð Minjastofnun Íslands fyrir samkeppni þar sem grunnskólanemendum gafst kostur á að túlka menningarminjar í sínu nærumhverfi á skapandi hátt. Keppnina nefndum við Menningarminjakeppni grunnskólanema og var hún hluti af European Heritage Makers Week. Keppnin gekk vonum framar og til gamans má geta að íslenska sigurverkefnið árið 2018 var valið eitt af tíu bestu verkefnum í Evrópu og fékk höfundur þess, Magndís Hugrún Valgeirsdóttir, í kjölfarið ferð til Strassborgar þar sem unga fólkið á bakvið verkefnin tíu hittist og fór m.a. saman í skoðunarferðir.

Í tengslum við Evrópsku menningarminjadagana (European Heritage Days) sem haldnir eru ár hvert hefur nú verið tekin sú ákvörðun að halda verkefninu European Heritage Makers Week gangandi áfram. Mun heiti keppninnar á Íslandi vera Menningarminjakeppni Evrópu en markmið keppninnar er að vekja athygli barna og unglinga á menningarminjum hérlendis með því að vinna fjölbreytt verkefni sem snúa að minjum í umhverfi hvers og eins. Þar sem um samevrópska samkeppni er að ræða er lagt upp með að verkefnin hafi tengingu við Evrópu, t.d. sýni tengsl menningarminja á Íslandi við Evrópu, varpi ljósi á hvernig samevrópsk saga okkar útskýrir tilvist eða gerð viðkomandi menningarminja eða hvernig evrópsk áhrif lýsa sér í sögu viðkomandi svæðis.

Til menningarminja teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornleifar, gömul hús og önnur mannvirki en fornleifar eru allar mannvistarleifar í umhverfi okkar sem eru 100 ára og eldri. Undir þetta geta því fallið fornar tóftar, skipsflök, þingstaðir, gömul minningarmörk í kirkjugörðum og margt fleira. Gömul hús og mannvirki eru einnig að finna um land allt.

Leiðbeiningar varðandi keppnina

Sú nýbreytni verður tekin upp í ár að aldurstakmark er í keppnina. Í ár geta öll börn og unglingar á aldrinum 12-18 ára tekið þátt. Á döfinni er að koma upp keppni fyrir yngri aldurshóp líka (8-11 ára) frá árinu 2020. Keppnin er þar af leiðandi ekki aðeins fyrir grunnskólanema heldur gefst nemendum framhaldskóla einnig tækifæri á að taka þátt.

Nemendum er boðið að túlka menningarminjar í þeirra nærumhverfi á skapandi hátt. Það má til dæmis vera mynd eða frásögn á hvaða formi sem er, s.s. ljósmynd, teikning, myndasaga, málverk, kvikmynd eða lag, og meðfylgjandi þarf að vera texti eða hljóðrás. Texta þarf verkefnið á ensku til að boðskapur þess komist til skila ef verkefnið er á íslensku.

Þema Evrópsku menningarminjadaganna í ár er „Arts and Entertainment“ eða „Listir og skemmtun“ og eru þátttakendur hvattir til að innleiða það í verkefni sín.

Nemendur safna upplýsingum um þær minjar eða þann stað sem þau velja sér. Hægt er að tala við staðkunnuga eða eldri ættingja, leita á netinu eða á bókasafni eða ræða við minjavörð síns svæðis (lista yfir minjaverði Minjastofnunar Íslands má finna á heimasíðu stofnunarinnar www.minjastofnun.is). Hægt er að velta fyrir sér atriðum eins og:

Hvernig minjar eða stað er um að ræða?

Gerðust þar einhverjir sérstakir atburðir?

Hver er saga staðarins?

Hvernig endurspeglast fortíðin á staðnum, hver er framtíð hans?

Hvaða tilfinningar vekur staðurinn?

Meðfylgjandi texti (getur verið í formi sögu eða ljóðs) byggist á því efni sem nemendur hafa safnað og upplifun þeirra af minjunum eða staðnum.

Verkefnum þarf að skila á rafrænu formi inn á síðu Íslands á heimasíðu European Heritage Makers Week . Opnað verður fyrir skil þann 18. apríl og síðasti skiladagur er 9. maí {ATH lengdan skilafrest, áður 1. maí]. Verkefni þurfa að innihalda mynd sem táknar viðkomandi verkefni, hlekk yfir á myndband ef slíkt er sett inn, nafn og aldur nemenda og stuttan texta þar sem fjallað er um tengingu verkefnisins við Evrópu. Starfsmenn Minjastofnunar munu aðstoða þátttakendur eftir þörfum sé þess óskað.

Hlutskarpasta verkefnið hlýtur verðlaun Minjastofnunar Íslands og fimm efstu verkefnin verða send áfram í Evrópukeppnina.

Í Evrópu hljóta 10 verkefni verðlaun og verðum þeim sigurvegurum boðið til Strassborgar.

Nánari upplýsingar veitir Þuríður Elísa Harðardóttir: thuridur@minjastofnun.is.

Frekari leiðbeiningar um European Heritage Makers Week má finna á heimasíðu verkefnisins og þar undir má finna sérstaka síðu Íslands.

Hér má sjá ítarlegar reglur keppninnar og leiðbeiningar á ensku.

Hér má sjá frétt um menningarminjakeppnina á Íslandi árið 2018 og þau verkefni sem send voru inn í hana .