Samstarfsverkefni
Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.
Minjaslóð - smáforrit
Minjaslóð er smáforrit sem inniheldur bæði Minjaleit og Minjaslóð. Minjaleit er fjársjóðsleit fyrir yngri kynslóðina þar sem unnið er með sögu hafnarsvæðisins í Reykjavík. Minjaslóð inniheldur fimmtán upplýsingapunkta á hafnarsvæðinu í Reykjavík þar sem hægt er að fræðast um höfnina, sögu hennar og hlutverk, s.s. í tengslum við fullveldi og aukið sjálfstæði Íslands. Forritið opnast sjálfkrafa á Minjaslóð en Minjaleit opnast þegar skjárinn er dreginn með fingri frá hægri til vinstri. Minjaleit hefst við Sjóminjasafnið í Reykjavík og virkar eingöngu á hafnarsvæðinu. Minjaslóð er hægt að opna og skoða bæði á hafnarsvæðinu en einnig heima eða hvar sem er.
Að smáforritinu standa Faxaflóahafnir, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Minjastofnun Íslands í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands og Menningararfsári Evrópu 2018.
Gamlar ljósmyndir koma frá Borgarsögusafni.
Um textagerð í Minjaslóð sá Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur.
Þorsteinn Gunnarsson, leikari og arkitekt, les texta bæði í Minjaslóð og Minjaleit.