Fara í efni

Samstarfsverkefni

Minjastofnun Íslands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Hér má finna þau helstu.

Menningar- og minjavernd á norðurslóð

Stjórnsýslan á Grænlandi, Íslandi og Svalbarða þarf að taka afstöðu til margra áleitinna spurninga um hvernig tryggja megi minjavernd og varðveislu staða sem tengjast menningararfi íbúa. Menningarumhverfi á norðurslóð er afar viðkvæmt og því er mikilvægt að miðla milli landanna þekkingu og reynslu af því hvernig staðið hefur verið að verndun minja og menningarlandslags. Ný skýrsla um menningarumhverfi endurspeglar vilja til þess að efla samstarf á sviði stjórnsýslu og löggjafar fyrir menningar- og minjavernd á norðurslóð. Í skýrslunni eru kynntar til sögunnar grundvallarreglur um stjórnun verndarstarfs sem styðjast má við til að tryggja sjálbæra varðveislu menningarumhverfis. Lögð er áhersla á að leiðbeiningarnar séu almennar og að þær séu grundvöllur fyrir stjórnsýslu á þessu sviði í löndum við heimskautsbaug. Þór Hjaltalín, Minjavörður Norðurlands vestra, tók þátt þessari norrænu samvinnu fyrir hönd Íslendinga og er hann einn af höfundum skýrslunnar. Mikilvæg forsenda fyrir vali á menningarlandslagi og þar með minjavernd, er samspil og samverkandi þættir í náttúrufari og menningarumhverfi.